17.12.2009 | 10:07
Jón Ólafsson og Þór Whitehead

Þór bendir í ritgerð sinni á, hversu fráleit ályktun Jóns sé. Þetta var ekki samþykkt eða yfirlýst skjal frá Komintern, heldur aðeins minnisblað eins manns til annars innan sambandsins. Þegar hér var komið sögu, voru kommúnistaflokkar um allan heim sauðtryggir Stalín, og var Komintern í höndum hans. En frá og með 1937 höfðu forystumenn sambandsins ekki annað hlutverk en hlýða fyrirmælum hans og leynilögreglunnar, segir Jón Ólafsson einmitt á 107. bls. í bókinni Kæru félögum. Það átti einnig við um íslenska kommúnistaflokkinn. Það hefði þess vegna verið stórfrétt, hefðu íslenskir kommúnistar gengið til stofnunar Sósíalistaflokksins haustið 1938 í andstöðu við Komintern.
Fyrir því eru hins vegar engar heimildir. Minnisblaðið er aðeins innanhússkjal. Þar bað höfundurinn Dímítrov að taka afstöðu til málsins. Skjalasafn Kominterns er gloppótt, svo að engin bein heimild er til um, hvaða afstöðu Dímítrov tók síðan. En nægar heimildir eru til eins og Þór bendir á fyrir hinu gagnstæða, að Sósíalistaflokkurinn var ekki stofnaður í andstöðu við Komintern. Kommúnistaflokkar Svíþjóðar og Danmerkur, sem báðir voru stalínískir, sendu til dæmis Sósíalistaflokknum heillaóskaskeyti við stofnunina, og í stríðsbyrjun, vorið 1940, skrapp einn leiðtogi sósíalista, Kristinn E. Andrésson, til Moskvu og gaf rækilega skýrslu um starfsemi Sósíalistaflokksins. Hvergi var þar minnst á neinn ágreining um stofnunina. Eftir stríð var Sósíalistaflokkurinn íslenski jafnan talinn til vinaflokka í Moskvu.
Ég dró síðan fram í dagsljósið skjal úr gögnum Sósíalistaflokksins, sem skar úr deilu þeirra Jóns Ólafssonar og Þórs Whitehead, eins og ég bloggaði um í gær, og er það birt í nýútkomnu hefti Stjórnmála og stjórnsýslu. Þetta er bréf frá einum trúnaðarmanni Kominterns, þar sem hann óskar nýstofnuðum samtökum ungra sósíalista, Æskulýðsfylkingunni, til hamingju og lýsir yfir ánægju með stefnuskrá þeirra. Þessi maður, sem seinna gekk undir nafninu Mihály Farkas, var kunnur stalínisti, annar aðalritari Alþjóðasambands ungra kommúnista og varamaður í framkvæmdanefnd Kominterns. Óhugsandi er, að hann hefði skrifað þetta bréf, hefði stofnun Sósíalistaflokksins verið í andstöðu við Komintern.
Jón Ólafsson lætur sér þó ekki segjast, eins og sást á athugasemd hans hér í gær. Ég ráðlegg öllum áhugamönnum um þetta mál að lesa hina rökföstu ritgerð Þórs í Sögu og grein mína í Stjórnmálum og stjórnsýslu, en mun sjálfur síðar leitast við að leiðrétta ýmsar fleiri missagnir Jóns í skrifum hans um íslenska kommúnista og sósíalista, villur, yfirsjónir og lítt rökstuddar eða jafnvel ógildar ályktanir. Eins og Árni Magnússon sagði forðum: Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Facebook