16.12.2009 | 16:20
Nýjar upplýsingar um stofnun Sósíalistaflokksins
Ritgerð er eftir mig í 2. tbl. 5. árg. Stjórnmála og stjórnsýslu, veftímarits, 57.65. bls., og nefnist hún Var Komintern andvígt stofnun Sósíalistaflokksins? Tildrög voru, að Jón Ólafsson, heimspekingur á Bifröst, taldi sig hafa fundið heimild fyrir því, að Komintern, alþjóðasamband kommúnista (sem starfaði 19191943), hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins. Þá lögðu íslenskir kommúnistar niður flokk sinn, en höfðu áður starfað í sérstökum kommúnistaflokki, sem átti aðild að Komintern. Heimild Jóns var minnisblað eins starfsmanns Kominterns frá sumrinu 1938. Dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, andmælti þessari kenningu Jóns með þeim rökum, að minnisblaðið hefði ekki verið opinber samþykkt Kominterns, auk þess sem allar aðrar heimildir bentu til þess, að stofnun Sósíalistaflokksins hefði verið gerð með samþykki Kominterns. Hafa þeir Jón og Þór háð um þetta harða ritdeilu í tímaritinu Sögu.
Ég fann í gögnum Sósíalistaflokksins nýja heimild, sem ég segi frá í ritgerðinni. Hún var heillaóskir í bréfi frá Michal Wolf, öðrum ritara Alþjóðasambands ungra kommúnista og varamanni í framkvæmdastjórn Kominterns, til Æskulýðsfylkingarinnar (samtaka ungra sósíalista) við stofnun hennar haustið 1938. Wolf varð síðar varnarmálaráðherra Ungverjalands undir nafninu Mihály Farkas og var eindreginn og illræmdur stalínisti. Óhætt er að segja, að þessi heimild eyði öllum vafa um það, að stofnun Sósíalistaflokksins var gerð með samþykki Kominterns. Þór Whitehead reyndist hafa rétt fyrir sér. Íslenskir kommúnistar með þá Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason í broddi fylkingar voru fylgispakir Kremlverjum, eins og fram kemur í rannsókn minni, Íslenskir kommúnistar 19181998, en hún er væntanleg á bók eftir eitt eða tvö ár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.12.2009 kl. 10:11 | Facebook