15.12.2009 | 10:48
Smjörklípa hrokagikkjanna
Hrokagikkirnir ungu sem láta mest í sér heyra þessa dagana, hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, nota smjörklípu í umræðunum um orsakir bankahrunsins og hugsanlega ábyrgð einstakra manna á því. Þeir fullyrða, að talsvert útlánatap lendi á Seðlabankanum vegna tilrauna hans til að bjarga bönkunum frá hruni. Ég hef bent á, að hið sama megi segja um seðlabanka annarra ríkja, þar sem bankakerfið var stórt. En með þessu eru þeir Gauti og Jón að tala um kostnað af björgunaraðgerðum, ekki orsakir slyss og hlut einstakra manna að því.
Smjörklípa er ágætt, íslenskt orð á þeirri rökvillu, sem á ensku kallast Red herring, rauð síld. Hún er að breyta skyndilega um umræðuefni í því skyni að afvegaleiða umræðurnar. Auðvitað ættu umræðurnar að snúast um orsakir bankahrunsins og hugsanlega ábyrgð einstakra manna á þeim. Orsakir hrunsins eru einkum fjórar:
- Kerfisgalli í EES-samningnum, svo að tryggingarsvæðið (Ísland) var annað en rekstrarsvæðið (Evrópa).
- Fautaskapur Breta, sem settu Landsbankann á lista yfir hryðjaverkasamtök og neituðu að bjarga hinum breska banka Kaupþings.
- Glannaskapur íslenskra banka, sem lánuðu eigendum sínum stórar fúlgur: Einn aðili (Baugsveldið) gat til dæmis safnað þúsund milljarða skuld við þá. Þúsund milljarða skuld!
- Andvaraleysi íslenskra stjórnvalda, jafnt stjórnmálamanna og eftirlitsaðila, sem skeyttu ekki um viðvaranir.
Í stað smjörklípu sinnar hefðu þeir Gauti og Jón átt að einbeita sér að rannsókn á þessum orsökum. Sú, sem ég nefni fyrst, er eflaust hin mikilvægasta frá hagfræðilegu sjónarmiði séð.
Bankahrunið var slys í þeim skilningi, að áreiðanlega vildi það enginn. En beri einhver ábyrgð á því, þá eru það auðvitað aðallega sjálfir auðjöfrarnir, skuldakóngarnir, og þjónar þeirra. Þar eru fremstir í flokki Baugsfeðgar, sem virtust hafa sjálftökuheimild í öllum bönkum og ítök í ýmsum stjórnmálaflokkum (aðallega þó Samfylkingunni), fjölmiðlum, á Bessastöðum og jafnvel hjá dómstólum. Það var aðeins einn íslenskur ráðamaður, sem varaði hvað eftir annað við, Davíð Oddsson, fyrst sem stjórnmálamaður, síðan sem seðlabankastjóri. Hrokagikkirnir ungu vilja af einhverjum ástæðum leiða athyglina frá því með smjörklípu sinni. Eru þeir að sýna nýjum valdhöfum, hvers þeir séu megnugir sem málþjónar? Eða villa tengslin við suma þá stjórnmálamenn, sem daufheyrðust við viðvörunum Davíðs, þeim sýn?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:54 | Facebook