Ólán heimsins einnig Agli að kenna

Tómas Guðmundsson orti í frægu kvæði:

Því meðan til var böl, sem bætt þú gast,
og barist var, á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.

Kvæðið er ekki verra fyrir það, að það var líklega ort undir áhrifum frá norska skáldinu Arnulf Överland.

Egill Helgason hefur í nokkur ár verið eins konar umræðustjóri Íslands. Enginn vafi er á því, að hann hefur veruleg áhrif til skamms tíma eins og allir, sem koma oft fram í sjónvarpi (þótt ég haldi að vísu, að slík áhrif séu ofmetin til langs tíma). En hver var afstaða Egils til hinnar hörðu baráttu um Ísland árin 2003–2004, þegar auðjöfrarnir reyndu að kaupa sig undan lögum? Egill sat þá hjá með háðsyrði á vör. Hann bloggaði 17. ágúst 2005: „Baugsmál eru í svo einkennilegri þrástöðu að maður óttast að þau muni tröllríða íslensku samfélagi næstu árin – eins leiðinlegt og það gæti orðið.“ Egill hélt áfram: „Og maður er strax orðinn dauðleiður á þessu. Allar horfur eru líka á að þetta haldi áfram fram yfir héraðsdóm og hæstarétt – það sem er einna verst er að fólk er hálfpartinn neytt til að taka afstöðu til mála sem kannski koma því ekkert sérstaklega mikið við. Fer maður kannski á endanum að segja eins og Lyga-Mörður í Njálu þegar hann frétti að Gunnar og Otkell væru að berjast við Rangá: „Þeir einir munu vera að ég hirði aldrei þó að drepist.““

Líklega er ástæðan til hatursherferðar Egils nú gegn Davíð, að hann skammast sín undir niðri fyrir hjásetu sína þá. Hefði Egill þá beitt áhrifum sínum í stað þess að sitja hjá, þá hefði sumt hugsanlega farið öðruvísi. Eftir ósigur Davíðs Oddssonar í baráttunni við Golíat um fjölmiðlafrumvarpið 2004 og hinn furðulega væga Baugsdóm í Hæstarétti 2006 töldu auðjöfrarnir sér alla vegi færa. Þeir ættu allt og mættu allt. Jafnvægið raskaðist, allt fór úr skorðum, enginn hlustaði á varnaðarorð Davíðs. Egill var að vísu aldrei í klappliði auðjöfranna eins og Sigurður G. Guðjónsson. Hann var ekki Baugspenni eins og Þorvaldur Gylfason. En Egill sat hjá, á meðan barist var. Þess vegna er ólán Íslands einnig honum að kenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband