13.12.2009 | 11:43
Líflína eða snara?
Hinir ungu og hrokafullu íslensku hagfræðingar, sem starfa vestanhafs og senda okkur reglulega tóninn upp til Íslands, Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, hafa gert mikið úr því atriði í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um afkomu ríkissjóðs, að Seðlabankinn hefði getað minnkað tap sitt af útlánum til íslensku viðskiptabankanna, hefði hann hert reglur um þau fyrr. Athugasemd Ríkisendurskoðunar er eflaust rétt, enda auðvelt að vera vitur eftir á. En gæta verður að því, hvað í henni felst. Hefði Seðlabankinn hert þessar reglur, þá hefðu bankarnir líklega hrunið talsvert fyrr. Þrátt fyrir allt vonuðu flestir gegn von, í lengstu lög, að einhverjir bankanna myndu standa af sér hina alþjóðlegu fjármálakreppu, sem er hin versta frá því í heimskreppunni. Úrlausnarefnið var að fleyta bönkunum yfir kreppuna, rétta þeim líflínu. En hvenær er líflína snara, sem óþarfi er að lengja í? Þeirri spurningu verður aðeins svarað með þeirri vitneskju, sem fæst eftir atburðarás, ekki fyrir hana.
Einn virtasti endurskoðandi landsins, Stefán Svavarsson, hefur skýrt ágætlega út, að Seðlabankinn gat ekki annað, þegar hann lánaði út með veði í skuldabréfum bankanna (ekki innlánum eins og Gauti B. Eggertsson skrifaði eitt sinn), en treyst Fjármálaeftirlitinu um það, að nægar eignir (í lánabókum bankanna) stæðu að baki þessum skuldabréfum. Stefán telur eins og fleiri, að í ljós hafi komið í þessari kreppu, hversu óheppilegt var að vista ekki Fjármálaeftirlitið í Seðlabankanum. Annars verður Jón Sigurðsson, sem sat fyrir Samfylkinguna í bankaráði Seðlabankans, að svara fyrir Fjármálaeftirlitið, þar sem hann var stjórnarformaður árið fyrir hrun.
Þeir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson láta eins og allt hafi verið gert rangt á Íslandi og allt rétt erlendis. Erlendir seðlabankar hafi aðeins lánað gegn tryggum veðum. Í því sambandi langar mig til að vekja athygli á frétt, sem virðist hafa farið fram hjá mörgum. Hún er, að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gagnrýndi í yfirheyrslum í bandaríska þinginu þá ráðstöfun Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, að skilja fjármálaeftirlit landsins frá seðlabankanum (Englandsbanka). Þetta hefði sitt að segja um, að breska ríkið sæti nú hugsanlega uppi með 850 milljarða punda útlánatap vegna björgunaraðgerða sinna í kreppunni.
850 milljarðar punda eru meira en 170.000 milljarðar íslenskra króna. Þetta nálgast það að vera svipuð upphæð á mann og talið er, að íslenska ríkið kunni að tapa á björgunaraðgerðum sínum fyrir milligöngu Seðlabankans í kreppunni, og voru íslensku bankarnir þó hlutfallslega miklu stærri en hinir bresku (og margt óvíst um afdrif eigna þeirra). 170.000 milljarðar íslenskra króna! Hvar eru hin tryggu veð Englandsbanka? Hvers vegna er gert ráð fyrir þessu feikilega útlánatapi þar? Því hljóta Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson að geta svarað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook