12.12.2009 | 13:24
Sigurður G. Guðjónsson í vandræðum
Sigurður G. Guðjónsson, kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjöri 1996, var um skeið forstjóri Stöðvar tvö, sem Baugsfeðgar áttu þá. Hann tryggði, að forseti synjaði sumarið 2004 fjölmiðlalögum þeim, er Alþingi hafði samþykkt, staðfestingar, en tilgangur laganna var að koma í veg fyrir, að auðjöfrar gætu ráðið allri skoðanamyndun í landinu. Þetta var í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, sem forseti notaði þetta vald. Eftir þetta raskaðist allt jafnvægi í landinu. Auðjöfrar töldu, að þeir ættu allt og mættu allt. Trylltur dans hófst í kringum gullkálfinn, og útrásarvíkingar, fjölmiðlungar, dómstólar og stjórnmálamenn (aðallega í Samfylkingunni) að þeim Sigurði og Ólafi Ragnari ógleymdum tóku allir þátt í honum.
Sigurður víkur hins vegar af nokkurri þykkju að mér í pistli á Netinu í fyrradag og segist hvergi hafa komið nálægt neinum útrásardansi. En svo illa vill til, að hann kemst í mótsögn við sjálfan sig í einni og sömu málsgreininni. Hann segir: Hef heldur aldrei verið lögfræðingur eins eða neins útrásarvíkings. Hef hins vegar glímt við nokkra þeirra fyrir skjólstæðinga mína. Ég kom inn í stjórn Fons að beiðni gamals skjólstæðings míns, Pálma Haraldssonar, eftir bankahrun haustið 2008. Hvenær hætti Pálmi í Fons að vera útrásarvíkingur? Sigurður sver einnig af sér að hafa veitt Landsbankamönnum ráðgjöf. Hann veit betur. Hann gerði það í baráttunni um Tryggingarmiðstöðina forðum. Og Sigurður sat í stjórn Glitnis, þegar sá banki lenti fyrstur bankanna í þroti. Ég veit ekki, hver er útrásarvíkingur, ef Sigurður er það ekki.
Sigurður brigslar mér í pistli sínum um að vera dæmdur maður. En fyrsti dómurinn, sem ég fékk, var fyrir að reka ólöglega útvarpsstöð í verkfalli prentara og ríkisútvarpsmanna haustið 1984. Þetta gerði ég í mótmælaskyni við einokun ríkisins á útvarpsrekstri, sem síðan var horfið frá. Það veitti mönnum eins og Sigurði tækifæri til að reka einkastöðvar. Ég barðist fyrir frelsinu, sem Sigurður misnotaði síðan, þegar hann stjórnaði sjónvarpsstöð fyrir auðjöfrana. Ég reyndi að bæta heiminn, en Sigurður að græða á honum.
Nú er Sigurður í stökustu vandræðum, því að hann ginnti forseta Íslands sumarið 2004 til að synja fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar. Þá var sagt, að gjá væri milli þings og þjóðar í málinu. En hafi hún verið einhver þá, er hún miklu breiðari nú samkvæmt skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum. Eins og dr. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor benti á í Speglinum síðastliðinn mánudag, missir forsetinn það litla, sem eftir er af trúverðugleika sínum, synji hann Icesave-frumvarpinu ekki staðfestingar.
Einnig er á það að líta, að forsetinn skrifaði undir fyrra frumvarp með sérstakri vísan til fyrirvara Alþingis, sem nú eru horfnir. Enn fremur ber að hafa í huga, að munurinn á fjölmiðlafrumvarpinu 2004 og Icesave-frumvarpinu nú er, að hægðarleikur var að breyta lögunum um fjölmiðla, teldu menn þá sig hafa gert mistök. Hitt verður vandasamara, að komast út úr því kviksyndi, sem vinstristjórnin núverandi virðist vera að leiða okkur Íslendinga út í.
(Myndin er af einkaþotu skjólstæðings Sigurðar, Pálma Haraldssonar í Fons. Sjá má myndir af einkaþotum útrásarvíkinganna á amx.is.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2009 kl. 00:12 | Facebook