11.12.2009 | 12:13
Öfug Laffer-áhrif á Íslandi
Ég birti grein undir þessu nafni í 48. tbl. 27. árg. Vísbendingar 7. desember 2009, 2.3. bls. Þar greini ég Laffer-áhrifin á Íslandi, sem svo má kalla (eftir bandaríska hagfræðingnum Arthur Laffer). Þau felast í því, að skattstofn stækkar iðulega við skattalækkanir (hjón bæta til dæmis við sig vinnu, ef þau þurfa að greiða lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta), svo að skatttekjur ríkisins minnka ekki eins mikið við slíkar skattalækkanir og ætla mætti og geta jafnvel hækkað: Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór eða stærri en stór sneið af lítilli köku.
Laffer-áhrifin af víðtækum skattalækkunum áranna 19912004 á Íslandi voru skýr. Meðal annars hækkuðu skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum verulega, þótt skattheimtan færi úr 45% niður í 18%. Skatttekjur ríkisins af einstaklingum hækkuðu einnig á sama tíma, svo að ekki mátti rekja þetta nema að litlu leyti til þess, að fjármagn hefði runnið frá einstaklingum til fyrirtækja með stofnun einkahlutafélaga, eins og Stefán Ólafsson prófessor hélt fram. Takið eftir, að ég reikna ekki með tölunum eftir 2004, því að þá hófst lánsfjárbóla, sem olli einhverju um hækkaðar skatttekjur ríkisins.
Ég rannsakaði meðal annars skatttekjur af leigutekjum af húsnæði. Fyrir 1997 voru þær skattlagðar eins og launatekjur. Líklega hefur venjulegur húseigandi þá greitt af þeim rösk 40% í skatt. En frá og með 1997 hafa leigutekjur verið skattlagðar eins og fjármagnstekjur, svo að af þeim voru fram á þetta ár greidd 10%. Fróðlegt er að sjá, hvernig skattstofninn stækkaði við skattalækkunina. Framtaldar leigutekjur þrefölduðust á einu ári, milli 1997 og 1998. Hvort tveggja var, að skattskil bötnuðu (menn svíkja síður undan 10% skatti en 40%) og að framboð á leiguhúsnæði jókst. Skattstofninn stækkaði. Húsaleigubætur voru komnar fyrr til sögu og hafa þess vegna ekki ráðið miklu um þessa breytingu.
Eftir nokkur ár var svo komið, að skatttekjur ríkisins af leigutekjum voru orðnar svipaðar og áður. Þær voru á að giska 329 milljónir króna 1995 af rösklega 40% skatti, en 352 milljónir 2007 af 10% skatti. Þetta eru greinileg Laffer-áhrif: Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór eða stærri en stór sneið af lítilli köku. En vondu fréttirnar eru, að núverandi ríkisstjórn hefur tekið allt aðra stefnu en hin fyrri. Hún hækkar alla skatta sem hún getur. Þá munu koma til sögunnar öfug Laffer-áhrif: Skattstofninn minnkar við skattahækkanir. Fólk minnkar við sig vinnu, atvinnurekendur leggja ekki út í áhættusöm fyrirtæki, þótt álitleg séu, fjármagnseigendur koma eigum sínum fyrir annars staðar. Kakan minnkar, svo að sneið ríkisins af henni verður miklu minni en spár allra spekinganna gerðu ráð fyrir.
Frekari rökstuðning fyrir þessu má sjá í grein minni í Vísbendingu.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2009 kl. 01:10 | Facebook