10.12.2009 | 06:57
Sigurður G. Guðjónsson einn aðaldansarinn

Nú skrifar Sigurður í Pressunni, að vitanlega þurfi Ólafur Ragnar ekki að synja Icesave-frumvarpinu staðfestingar, því að hann eigi ekki að skera Sjálfstæðisflokkinn úr eigin snöru.
- Sigurður minnist ekki á, að forsetinn undirritaði frumvarpið í fyrri gerð með sérstakri skírskotun til fyrirvaranna, sem nú eru horfnir.
- Hann getur þess ekki, að nú hefur samkvæmt skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum myndast miklu breiðari gjá milli þings og þjóðar en í fjölmiðlafrumvarpsmálinu.
- Hann víkur ekki að því, að munurinn á fjölmiðlafrumvarpinu og Icesave-málinu er, að nýtt Alþingi hefði eftir 2004 hæglega getað fellt fjölmiðlafrumvarpið úr gildi, en það er hægara sagt en gert að ógilda Icesave-samninginn, þótt vinstristjórnin falli í næstu kosningum.
Gagnrýni Sigurðar kemur líka úr hörðustu átt. Hann var einn ákafasti útrásarlögfræðingurinn. Hann veitti Landsbankanum margvíslega ráðgjöf, á meðan hann var einkabanki. Varaði hann þá við Icesave-reikningunum? Hann sat í stjórn Glitnis, þegar bankinn féll. Varaði hann þá við ógætilegum rekstri bankanna, eins og þáverandi seðlabankastjóri gerði hvað eftir annað? Sigurður var stjórnarformaður Fons hf., sem hann stýrði í gjaldþrot. Hann var stjórnarformaður LL-eigna ehf., Dýrfisk ehf. og fleiri fyrirtækja. Einn aðaldansarinn í kringum gullkálfinn þykist nú hvergi hafa komið nálægt!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2009 kl. 00:17 | Facebook