Siðfræði umhverfisins

elephant-walk-joseph-g-holland.jpgSíðustu helgi, dagana 3.–6. desember, tók ég þátt í fróðlegri málstofu um siðfræði umhverfisins í Tucson, Arizona. Margt var þar rætt, sem hlýtur að leita á alla hugsandi menn. Nýtur maðurinn sérstöðu í náttúrunni eða hafa aðrar lifandi verur einhver réttindi og jafnvel dauðir hlutir? Meðal annars ræddum við þá kenningu ástralska heimspekingsins Peters Singer, að öll dýr séu jöfn í þeim skilningi, að þau eigi öll jafnan rétt á því, að tekið sé siðferðilegt tillit til þeirra. Singer telur það villimennsku að drepa dýr og leggja þau sér til munns. Ég er einn þeirra, sem hafna kenningu hans. Af þeirri staðreynd, að menn hafa réttindi í krafti þeirrar skynsemi, sem þeir eru gæddir, leiðir ekki, að dýr hafi slík réttindi, jafnvel þótt sum þeirra virðist skynsamari en önnur. Hins vegar kann að vera, að við höfum ýmsar skyldur við þau. En þær skyldur eru ekki samar og jafnar við alla. Til dæmis höfum við aðrar skyldur við apa, sem eru næstir okkur í dýraríkinu, en mýflugur. En ekki þarf neina heimspekinga til að segja okkur, að þörf sé á dýravernd.

Ég varpaði fram nokkrum spurningum á málstofunni. Þegar rætt var um skyldur okkar við komandi kynslóðir, spurði ég eins og gamli maðurinn í Flóanum: Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur? Með því segi ég ekki, að fólk eigi ekki einhverjar skyldur við komandi kynslóðir, heldur að ríkið og sérfræðingar þess geta trauðla gert grein fyrir þeim eða framfylgt þeim. Við rækjum slíkar skyldur með eignarréttinum, fjölskyldunni og þeirri samheldni eða samkennd, sem sprettur af sögu okkar og arfi. Þegar rætt var um dýr í útrýmingarhættu, spurði ég, hver bera skyldi kostnaðinn af friðun þeirra. Tökum til dæmis íslenska örninn, sem leggst á æðarvarp og bakar með því æðarbændum mikið tjón. Hann er friðaður. Hver á að bera kostnaðinn? Þeir, sem vilja friða örninn? Bændurnir? Almenningur (ríkissjóður)? Sjálfur komst ég raunar að þeirri niðurstöðu, að örninn væri svo mikilvægur í náttúru Íslands, að eðlilegt væri, að almenningur bæri kostnaðinn af friðun hans, enda er mælt fyrir um hana í lögum. 

Rætt var um ýmis sjaldgæf dýr. Ég velti því fyrir mér, hvers vegna allir vildu friða stór dýr eins og fíla og hvali, en ekki lítil dýr og jafnvel örsmá. Lynn Scarlett, fyrrverandi aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var á málstofunni, sagði í gamni, að í Washington-borg væri sérstakt orð notað um þetta fyrirbæri, „charismatic megafauna“, geðþekkir risar úr dýraríkinu. Fátt var hins vegar um svör í málstofunni, þegar ég benti á, að hvalategundir á Íslandsmiðum eru ekki í útrýmingarhættu og að bann við því að veiða þá hefur valdið offjölgun þeirra, svo að þeir taka fæðu frá öðrum tegundum, þar á meðal manninum sjálfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband