9.12.2009 | 05:15
Ná lög ekki yfir Egil Helgason?
Ríkisútvarpið er um það ólíkt venjulegum fjölmiðlum eins og Morgunblaðinu og Stöð tvö, að við getum ekki sagt því upp. Það er í eigu almennings og á að þjóna almenningi. Þess vegna eru lagaskyldur þess ríkari en annarra fjölmiðla. Því ber til dæmis að lögum að gæta óhlutdrægni í frásögnum og umræðum um menn og málefni. Það merkir vitaskuld ekki, að skoðanir megi ekki koma fram, heldur hitt, að ekki sé reynt að þagga niður skoðanir, sem hljóta að þykja gjaldgengar. Það er þess vegna hneyksli, að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skuli hafa valið Egil Helgason til að stjórna öllum opinberum umræðum í landinu um stjórnmál og bókmenntir. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Hann eys fúkyrðum yfir þá í hverri viku á bloggsíðu sinni á Eyjunni. Sjónarmið þeirra fá ekki að komast að í þáttum hans (þótt þriðjungur þjóðarinnar telji samkvæmt skoðanakönnunum, að Davíð sé best til þess fallinn að leiða þjóðina út úr núverandi þrengingum).
Í Sífri Egils eru jafnan fjórir vinstrimenn fyrir einn hægrimann, og hann er iðulega einhver óánægður utanveltumaður, sem tekur undir með kórnum í stað þess að andmæla honum. Ég hef ekkert á móti því, að Egill hafi sinn þátt. En forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins ber lögum samkvæmt að gæta mótvægis. Þessi fjölmiðill á að vera margradda, ekki eintóna. Egill er í fullu starfi fyrir Ríkisútvarpið og segist aðeins vera með um 750 þúsund krónur á mánuði fyrir það (eftir skatt?). Ég hef áður rifjað hér upp, að haustið 2005 áminntu forsvarsmenn Ríkisútvarpsins Sigmund Sigurgeirsson, starfsmann fréttastofunnar, vegna ummæla hans á bloggi sínu um Baugsmálið.
Ekki er heldur úr vegi að minnast hér á reglur Ríkisútvarpsins breska, BBC, um blogg starfsmanna. Þar segir, að starfsmenn skuli sýna öðrum nærgætni á bloggum sínum. Þeir skuli bera undir yfirmenn sína allt það, sem vakið geti efasemdir um óhlutdrægni þeirra og orðheldni. Sé þeim boðin greiðsla fyrir að blogga, þá skuli þeir ræða við yfirmenn sína, áður en þeir taki slíku boði, enda geti þar orðið hagsmunaárekstur. Sjálfur þiggur Egill 200 þúsund krónur á mánuði fyrir að blogga á Eyjunni. Bar hann það undir yfirmenn sína? Eða gerir Ríkisútvarpið íslenska vægari siðferðiskröfur en hið breska?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook