9.12.2009 | 05:01
„Fagleg sjónarmið“
Eftir bankahrunið hættu margir að treysta þeim, sem áður höfðu gefið tóninn, talað af myndugleika, farið með kennivald. Þeir sneru sér að ýmsum háskólamönnum, sem áður höfðu grúft sig yfir rykfallnar skræður og tautað fyrir munni sér talnarunur, enda virtust þeir svo utanveltu, að þeir væru saklausir af hruninu. Töfraorðið var skyndilega ekki lengur Sesam, Sesam, opnist þú, heldur fagleg sjónarmið. Óspart var til dæmis hneykslast á því, að maður, sem ekki hefði háskólapróf í hagfræði, hefði orðið aðalbankastjóri Seðlabankans íslenska. Erlendir sérfræðingar, sem sjálfir voru með háskólapróf í hagfræði og áttu því vitaskuld engra hagsmuna að gæta, tóku kröftuglega undir þetta. Sagan er þó ólygnust. Hvernig reiðir stofnunum af undir stjórn hagfræðinga í samanburði við aðra? Skoðum prófskírteini þeirra manna, sem verið hafa aðalbankastjórar Seðlabankans fyrir hrun. Bankinn var 1961 til 1993 undir stjórn manna með háskólapróf í hagfræði. Hann var 1994 til 2008 undir stjórn manna með háskólapróf í lögfræði (og fyrrverandi stjórnmálamanna). Helsti mælikvarðinn á frammistöðu Seðlabanka er jafnan talinn verðbólga. Því minni sem hún er, því betri er frammistaðan, og öfugt. Ég reiknaði út meðalverðbólgu þessi tvö tímabil (allar tölur eru til á vef hagstofunnar).
Undir stjórn hagfræðinganna 19611993 var meðalverðbólga 24,3%.
Undir stjórn lögfræðinganna 19942008 var meðalverðbólga 4,4%.
Auðvitað reka mennirnir með háskólapróf í hagfræði (sem eiga vitaskuld engra hagsmuna að gæta) upp ramakvein. Fleira skipti máli og skýri verðbólgu, segja þeir, en prófskírteini aðalbankastjóra Seðlabankans. Þá svara ég aðeins einu: Ég er sammála!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook