Sífur Egils

silfuregils_ruv_940745.jpgEgill Helgason gleymir því, að hann starfar ekki á einkamiðli, sem getur hegðað sér að geðþótta. Hann starfar á Ríkisútvarpinu, sem við getum ekki sagt upp ólíkt Morgunblaðinu og Stöð tvö, enda hvílir á því lagaskylda um óhlutdrægni. Á þessum ríkismiðli er hann umræðustjóri, ekki aðeins um stjórnmál, heldur líka bókmenntir. Með þessu hefur hann öðlast mikið vald. En alkunna er, að valdið spillir. Egill tekur því illa, ef menn lúta ekki óskoruðu dagskrárvaldi hans. Þegar ég svaraði eitt sinn á bloggi mínu fullum hálsi daglegum árásum DV á mig og dirfðist að setja bloggið á Facebook-síðu mína, skrifaði Egill ótilkvaddur inn á síðuna, að ég ætti ásamt eiganda DV (Jóni Ásgeiri Jóhannessyni) að hverfa út í hafsauga! Þetta skrifaði maðurinn, sem stjórnar umræðunni á Íslandi! Nægði honum ekki að stjórna tveimur sjónvarpsþáttum á viku í ríkismiðlinum?

Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Þegar Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði hann á heimasíðu sína 24. september 2009:

„Comon, ætli maður sé ekki frekar með æluna upp í kok. Klíkan í kringum Davíð með annað dagblaðið. Og Jón Ásgeir og hans lið með hitt. Ojbjakk.“

Þegar Björn Bjarnason fann að hatursbloggi Egils á Netinu, ruku yfirmenn Ríkisútvarpsins upp Agli til varnar. Þeir höfðu gleymt því, hvernig þeir brugðust við tiltölulega meinlausu bloggi Sigmundar Sigurgeirssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Suðurlandi, um Baugsmálið haustið 2005. Þá fékk Sigmundur áminningarbréf frá lögfræðingi Ríkisútvarpsins, og Óðinn Jónsson fréttastjóri tilkynnti, að hann hefði með skrifum sínum „sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu“.

Egill hefur með níðskrifum sínum á Netinu sýnt fullkomið dómgreindarleysi. Ég er sjálfur andvígur því að þagga niður skoðanir hans. Ég óska honum ekki út í hafsauga eins og hann mér. En hvernig hyggjast yfirmenn Ríkisútvarpsins tryggja, að fleiri skoðanir komist þar að en þær, sem Egill Helgason leggur blessun sína yfir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband