Hlýnun jarðar

omar_hausmynd.jpgÓmar Ragnarsson helgar mér nýlegan pistil á bloggi sínu. Þar fullyrðir hann, að ég haldi því fram, að ekki hafi hlýnað á jörðinni síðustu áratugi. Þetta er rangt. Mér dettur ekki í hug að neita því, að hlýindaskeið hefur verið hér síðustu þrjátíu árin eða svo. Hvort tveggja er, að mælingar sýna það ótvírætt og við vitum þetta öll, því að reynsla okkar segir okkur það. Miklu kaldara var í Reykjavík, þegar ég var barn og unglingur, en nú er. Mér er í bernskuminni, þegar þulur Ríkisútvarpsins tilkynnti alvarlegri röddu, að nú nálgaðist hafís landið, og þegar viðtöl voru snemmsumars við afabróður minn, Halldór Pálsson búnaðarmálastjóra, um kal í túnum, ár eftir ár.

Tilefnið til færslu Ómars var, að ég hafði vakið athygli á því, að einhverjir hafa komist í tölvupóst rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum við East-Anglia-háskólann (þar sem Össur Skarphéðinsson stundaði nám) og birt á Netinu. Í þeirri stofnun starfa margir áköfustu fylgismenn kenningarinnar um það, að stórkostleg hætta sé af hlýnun jarðar, sem sé af mannavöldum, svo að mannkyn verði ekki aðeins að stórefla rannsóknir í loftslagsfræðum (veita þeim sjálfum hærri styrki), heldur gerbreyta lífsháttum sínum, til dæmis með takmörkun útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Í tölvupóstinum kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Loftslagsfræðingarnir leggja á ráðin um, hvernig bægja megi þeim vísindamönnum frá ráðstefnum og vísindatímaritum, sem séu annarrar skoðunar, og fela ýmsar óþægilegar staðreyndir með talnabrellum. Til dæmis var hlýindaskeið á miðöldum, þegar Ísland og Grænland byggðust, sem enginn getur rakið til útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Einnig viðurkenna loftslagsfræðingarnir sín í milli þá óhentugu staðreynd, að síðustu tíu árin hefur ekki hlýnað, og hefur þó losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið, sem á að valda hlýnuninni, stóraukist á tímabilinu.

Að sjálfsögðu nægir þetta ekki til að hrekja kenninguna um það, að mannkynið kunni að eiga þátt í hlýnun jarðar síðustu áratugi með losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft. Hún er eflaust gild innan sinna marka. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt annað hafi áhrif á loftslag, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi. Hvort sem mannkynið hafi með gerðum sínum einhver veruleg áhrif á loftslag eða ekki, geti það ekki stjórnað loftslaginu. (Veðurfræðingar vita ekki einu sinni nóg um veðrið til að geta spáð fyrir um það með fullri vissu á morgun.) Þess vegna sé betra að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Meira tel ég mig ekki geta sagt. Þess vegna missti Ómar Ragnarsson marks með færslu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband