8.12.2009 | 14:49
Stórskaðlegar skattahækkanir
Með því að hækka fjármagnstekjuskatt er verið að refsa mönnum fyrir sparsemi. Mestallar fjármagnstekjur eru í eðli sínu tekjur af uppsöfnuðu fjármagni. Menn hafa sparað til að eignast húsnæði, sem þeir leigja út, eða kaupa hlutabréf, sem þeir fá ýmist af arð eða selja. Hár fjármagnstekjuskattur merkir, að það borgar sig ekki eins vel og ella að hugsa til framtíðar, leggja til hliðar, sýna fyrirhyggju. Slíkur skattur hefur því röng hegðunaráhrif. Núverandi ríkisstjórn stígur mikið óheillaskref með því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% upp í 18%. Skattasérfræðingar núverandi ríkisstjórnar eru menn, sem vildu þegar í góðærinu hækka skatta. Það er þeim mikilvægara, að hinir ríku verði fátækari en að hinir fátæku verði ríkari. Þeir eru jöfnunarsinnar af ástríðu. Þeir vilja jafna allt niður á við.
Auk þess kunna þeir ekki að reikna. Stefán Ólafsson prófessor sagði í Morgunblaðinu 26. febrúar 2007, að sumir gætu fært hluta atvinnutekna sinna yfir í fjármagnstekur sem eru skattlagðar um 10% í stað hátt í 40% skattlagningar atvinnutekna. Þessar tölur hans voru báðar villandi. Venjulegur atvinnurekandi, sem greiddi sér út arð í stað þess að greiða sér út laun, þurfti í raun að greiða 26,2% skatt af tekjum sínum (fyrst greiddi hann 18% tekjuskatt fyrirtækja af hagnaði sínum og síðan 10% af þeim 82%, sem eftir voru, en ekki þarf mikinn reikningsmann til að sjá, að þetta er samtals 18+8,2=26,2%). Venjulegur launþegi greiddi í raun ekki 36% skatt af tekjum sínum. Vegna skattleysismarkanna greiddi hann 0% af fyrstu 90 þúsund krónum sínum árið 2007, 18% af fyrstu 180 þúsund krónunum og svo framvegis. Venjulegur launþegi með meðaltekjur greiddi árið 2007 í raun um 28% af tekjum sínum í tekjuskatt eða svipað og fjármagnseigandinn.
En þarf ekki að afla fjár í ríkissjóð? Vissulega, en það mætti gera á tvennan hátt. Í fyrsta lagi mætti færa útgjöld og þjónustustig ríkisins nokkur ár aftur í tímann, til dæmis til ársins 2004, en þá lifði þjóðin engu eymdarlífi. Í öðru lagi mætti selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun, og fyrir það fengist sama fé í þrjú ár og gert er ráð fyrir, að allar skattahækkanirnar færi í ríkissjóð (um 120 milljarða).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Facebook