8.12.2009 | 14:47
Hringing frá DV
Ég fékk fyrir nokkrum dögum senda í tölvupósti mynd, sem einhverjir gárungar hafa sett á Netið, prentaði hana út (í einu eintaki) og sýndi nokkrum samkennurum mínum í Háskóla Íslands. Mér fundust upplýsingarnar, sem komu fram á myndinni, fróðlegar. Þetta er mynd af einu helstu umræðuefni dagsins, klíkuskap. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og fleiri hafa sagt, að klíkuskapur sé allt of algengur hér á landi. Ég held að vísu, að hann sé óhjákvæmileg afleiðing af fámenni þjóðarinnar. Klíkuskapur er annað orð á kunningsskap, og hann er hvort tveggja, kostur og galli. Okkur verður heldur starsýnt á gallana þessa dagana, en megum ekki gleyma kostunum. Samtrygging er stundum góð og stundum vond. Hitt er annað mál, að þau Sigurjón Pálsson og Helga Jónsdóttir, sem eru sýnd á þessari mynd, verða að sannfæra okkur um það, að þau taki efnislega afstöðu til mála, en fari ekki eftir því, sem venslafólk þeirra og vinir hafa hag af. Sigurjón hefur einmitt prýðilegt tækifæri til þess næstu vikur, eftir að Jóhannes í Bónus lýsti yfir því, að Hagar hefðu lagt auglýsingabann á Morgunblaðið. Sigurjón hlýtur að nota aðstöðu sína í stjórn 1998 ehf. (sem á Haga) til að hnekkja því auglýsingabanni. Hann getur ekki látið mægðir sínar við forstjóra 365-miðla ráða.
En því minnist ég á þetta, að í dag hringdi í mig blaðamaður frá DV, sem spurði, hvort ég hefði dreift þessari mynd í Háskólanum, eins og vitni segðu. Ég svaraði honum sem satt var, að það hefði ég ekki gert, og spurði á móti, hvort DV hefði ekki meiri áhuga á því, sem myndin sýnir, en hverjir koma henni á framfæri. Varla vildi DV þagga niður gagnrýni á klíkuskap. Myndin á líka erindi til okkar allra, svo að ég leyfi mér að setja hana hér til að bæta það upp, að ég skyldi ekki hafa dreift henni í Háskólanum, heldur aðeins prentað þar út af henni eitt eintak og sýnt nokkrum samkennurum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Facebook