Bók Styrmis um hrunið

l-bcfibijejh.jpgBók Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, Umsátrið, er vönduð og vel skrifuð. Höfundur er saddur valdadaga og semur þessa bók ekki til að ná sér niðri á einhverjum, heldur til að skýra atburðarásina fyrir sér og lesendum. Margir hafa staldrað við þá tilgátu hans, að rannsóknarnefnd Alþingis muni gera tillögu um, að þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði leidd fyrir Landsdóm sökum vítaverðrar vanrækslu í aðdraganda hrunsins, sem valdið hafi íslenskum almenningi stórkostlegu fjárhagslegu tjóni. Þessi tilgáta kom mér á óvart. En Styrmir bendir á, að formaður rannsóknarnefndarinnar hafi sagt opinberlega, að nefndin eigi eftir að flytja þjóðinni erfið tíðindi. Hver gætu þau verið önnur? Það sést líka vel af bók Styrmis, að þessir ráðherrar daufheyrðust við ítrekuðum viðvörunum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, sem sagði þeim, að bankarnir hefðu vaxið út fyrir þau mörk, að íslenska ríkið gæti aðstoðað þá, færi illa, auk þess sem hann hefði grun um, að afkoma þeirra væri verri en gæti að líta í bókum þeirra.

Fróðlegt er samtal Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og Styrmis á Bessastöðum á miðju sumri 2004. Ólafur Ragnar mærði unga, íslenska viðskiptajöfra af miklu kappi, en Styrmir maldaði eitthvað í móinn. Þegar leið á spjallið, sagði Styrmir: „Það getur ekki verið, að þetta samtal sé að fara fram. Þú talar eins og fulltrúi stórkapítalista, ég eins og ég væri ritstjóri Þjóðviljans!“ Styrmir minnir einnig á, að viðskiptajöfrarnir eignuðust flesta fjölmiðla, eftir að forseti synjaði fjölmiðlafrumvarpi frá Alþingi staðfestingar þetta sumar. Eftir það var lítil von eðlilegs aðhalds frá fjölmiðlum. Styrmir rifjar upp ummæli ýmissa vinstrimanna nokkrum árum áður um það, hversu nauðsynlegt sé að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum. Ólafur Ragnar Grímsson sagði til dæmis á þingi í febrúar 1995: „Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútímahugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hafa í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði, sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði, sem koma í veg fyrir það, að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum.“

Styrmir telur, að átökin um fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi breytt miklu í aðdraganda hrunsins: „Eftir bankahrunið var spurt: „Hvar voru fjölmiðlarnir? Á móti má spyrja: Við hverju var að búast eftir það, sem á undan var gengið?“ Um þetta er ég sammála honum. Viðskiptajöfrarnir og þá sérstaklega skuldakóngurinn í þeirra röðum, Jón Ásgeir Jóhannesson, töldu eftir þessi átök, að þeir væru orðnir ósnertanlegir. Þeir mættu allt og gætu allt. Ég er hins vegar ekki sammála Styrmi um það, að kvótakerfið í sjávarútvegi hafi skipt sérstöku máli í þessu sambandi. (Frjálst framsal í uppsjávarfiski komst á þegar árið 1979.) Vissulega skapaðist fé, þegar fiskistofnar, sem verðlitlir höfðu verið sökum offjárfestingar, urðu verðmætir. En einnig skapaðist fé, þegar sparnaður hlóðst upp í lífeyrissjóðum, og dettur engum í hug að rekja bankahrunið til þess. Það er í eðli sínu æskileg þróun, að dautt fjármagn verði lifandi.

Þegar ég las bók Styrmis, fannst mér án þess þó að vita það með neinni vissu, að örlög íslensku bankanna hefðu endanlega ráðist eftir röng viðbrögð þeirra við „Geysiskreppunni“ 2006. Þeir komust klakklaust í gegnum þá óvæntu kreppu, en töldu hana eftir það frekar „áskorun“ (svo að notað sé algengt orð þess tíma) en viðvörun. Þeir ákváðu ekki að minnka niður í hæfilega stærð fyrir Ísland, afla sér öflugri bakhjarla erlendis eða gæta meira hófs í viðskiptaháttum. Þegar liðið var fram á mitt ár 2007, var orðið of seint að snúa við. Styrmir bendir réttilega á, að bankahrunið varð, vegna þess að erlendir aðilar ákváðu að rétta Íslendingum ekki hjálparhönd. En fullnægjandi skýringar vantar á því. Var það vegna þess, að gætnum ráðamönnum ytra blöskruðu viðskiptahættir Íslendinga? Eða var það vegna þess, að erlendir viðskiptabankar kærðu sig ekki um nýja og röska keppinauta? Átti Ísland að verða einhvers konar víti til varnaðar? Skólabókardæmi? Sennilega er of mikið lesið í söguna með einhverri einni slíkri skýringu. Bankahrunið var niðurstaða flókinnar atburðarásar, þar sem margt fór miður og fáir sem engir ætluðu sér sennilega að gera illt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband