
Ég get ekki ímyndað mér annað en að langflestir þeir, sem starfa í Arion-banka (Kaupþingi), vilji vera heiðarlegir, réttsýnir og sanngjarnir. Vissulega eru þeir ekki öfundsverðir af hlutverki sínu um þessar mundir, þar sem þeir taka þátt í því að reisa Ísland úr rústunum. Þá þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir. Ég hef hins vegar áhyggjur af því, að þeir átti sig ekki alveg á því, að þeir starfa ekki lengur í einkafyrirtæki, heldur ríkisstofnun, þar sem reynir á ýmislegt, sem þeir áttu ef til vill ekki áður að venjast, til dæmis að hafa allar embættisfærslur í lagi, svo að þær standist skoðun. Ef einhverjir stjórnmálamenn leggja hart að Arion-mönnum að veita Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sérstaka og óeðlilega fyrirgreiðslu í sambandi við uppgjör á eignum og skuldum hlutafélagsins 1998 (sem á Haga og með því Bónus og Hagkaup), þá ráðlegg ég þeim því sjálfra sín vegna að geta framvísað um það skriflegum gögnum síðar meir. Ég hef enga trú á því, að Arion-menn afskrifi af sjálfsdáðum fimmtíu milljarða skuldir Jóns Ásgeirs gegn því, að hann leggi (annaðhvort sjálfur eða undir dulnefni, eins og hann hefur oft tíðkað) fram nokkra milljarða upp í skuldir sínar. Það væri í fullkominni mótsögn við skráðar vinnureglur bankans um, að skuldir séu aðeins afskrifaðar hjá þeim, sem njóta trausts. Það væri raunar líka í fullkominni mótsögn við orð núverandi valdsmanna, sem brugðust ókvæða við tilboði Björgólfsfeðga fyrr á árinu um að greiða helming skulda sinna gegn því að fá afganginn afskrifaðan. Þetta væri áreiðanlega siðferðisbrot og líklega lögbrot. Sú ákvörðun, sem Arion-menn standa frammi fyrir, er ekki aðeins viðskiptalegs eðlis. Þar reynir líka á það, hvort allir séu jafnir fyrir lögum í þessu landi. Auðvitað á bankinn að afgreiða þetta mál eins og Glitnir leysti mál Árvakurs: Taka félagið af fyrri eigendum og bjóða það út, jafnvel í nokkrum hlutum.