Skattakenningar Jóhönnu Sigurðardóttur

Jóhanna Sigurðardóttir fór mikinn um skattamál á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Keflavík í dag. Hún sagði, að sú skattastefna, sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar fylgdu, hefði verið „brjálæðisleg“. Skattbyrði tekjulægstu hópanna hefði þyngst, en hinir ríku orðið ríkari. Vert er að hafa í huga, hvers vegna Jóhanna gat sagt, að skattbyrði hinna tekjulægstu hefði þyngst. Það var vegna þess, að árin 1995–2004 hækkuðu tekjur margra úr þessum hópi svo mikið, að þeir tóku að geta greitt skatta, en áður voru tekjur þeirra svo lágar, að þeir lentu undir skattleysismörkum. Var þetta ekki æskilegt? Við sjáum best, hversu heimskulegt skattatal Jóhönnu var, með því að skoða, hvað gerist, ef fyrirtæki hættir að tapa og tekur að græða. Á meðan það tapaði fé, greiddi það auðvitað engan tekjuskatt. Um leið og það tekur að græða, verður það um leið að greiða tekjuskatt. Skattbyrði þess hefur vissulega þyngst. En er það ekki æskilegt?

Þegar tölur um tekjuþróun á Íslandi 1995–2004 eru skoðaðar, sést, að tekjur hinna tekjulægstu hækkuðu örar en í grannríkjunum að Noregi með allan sinn olíuauð undanskildum. Þær hækkuðu til dæmis tvisvar sinnum meira á Íslandi en var meðaltalið í ríkjum OECD. Hitt er annað mál, að tekjur tekjuhæsta hópsins hækkuðu enn örar þetta tímabil. En hvort eigum við að hafa áhyggjur af hinum fátæku eða hinum ríku? Auðvitað hinum fátæku. Það kerfi er gott, þar sem tekjur þeirra og tækifæri aukast. Þetta hefði sá heimspekingur getað sagt Jóhönnu, sem flokkssystkini hennar hafa hampað hvað mest síðustu árin, Bandaríkjamaðurinn John Rawls. Aðalatriðið er ekki að gera hina ríku fátækari, heldur að gera hina fátæku ríkari. Það tókst árin 1995–2004. Auðvitað fór allt úrskeiðis 2004–2008, meðal annars í þeirri ríkisstjórn, sem Jóhanna sat í frá vorinu 2007, en sem ráðherra gerði hún ekkert til að afstýra þeim ósköpum, sem dundu yfir þjóðina, og daufheyrðist við þrálátum viðvörunum úr Seðlabankanum. Nú situr Jóhanna í ríkisstjórn, sem hefur það eina markmið að gera hina ríku fátækari, jafnvel þótt það hafi í för með sér, að hinir fátæku verði líka fátækari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband