Af íslensku leiðinni á hina sænsku?

Árin 1991–2004 tókst Íslendingum að marka sérstaka stefnu, fara íslensku leiðina, sem fólst í hóflegum sköttum, víðtæku atvinnufrelsi og rausnarlegum bótum til þeirra, sem minnst mættu sín. Þessi leið var ekki sænsk, því að hún fól ekki í sér, að til yrði risastórt og kostnaðarsamt millifærslubákn með kæfandi faðmlag. Og hún var ekki bandarísk, því að lítilmagnanum var sinnt, en hann ekki skilinn eftir úti á berangri. Ýmislegt fór hins vegar úrskeiðis árin 2004–2008 vegna veikrar stjórnmálaforystu, ógagnrýnna fjölmiðla, daufra dómstóla, óvirðulegs forsetaembættis og ósvífinna fjármálafursta, en það er annað mál.

Nú á hins vegar að hverfa af hinni íslensku leið á hina sænsku, eins og núverandi valdhafar eru ófeimnir við að segja. Það er þess vegna vert að rifja upp, að Svíar hafa dregist aftur úr Bandaríkjamönnum síðustu áratugi. Árið 1964 voru meðaltekjur Svía (verg landsframleiðsla á mann) um 90% af meðaltekjum Bandaríkjamanna. Fjörutíu árum síðar var hlutfallið komið niður í 75%. Sama gerist, ef við förum að dæmi Svía. Þá drögumst við aftur úr. Þá verður Ísland í Evrópu eins og Nýfundnaland er í Kanada: Lifandi byggðasafn. Sænski hagfræðingurinn Fredrik Bergström, sem komið hefur hingað til lands og haldið fyrirlestra, gerir fróðlegan samanburð á ríkjum Bandaríkjanna og einstökum ríkjum Evrópusambandsins (sem nú eru orðin 27 talsins, en voru lengi 15). Samkvæmt þeim samanburði myndi Svíþjóð vera eitt fátækasta ríkið í Bandaríkjunum, ef það tæki upp á því að gerast þar 51. ríkið. Íbúarnir hefðu svipaðar meðaltekjur og í Mississippi og Arkansas!

Við eigum vitanlega hvorki að apa eftir Svíum né Bandaríkjamönnum, heldur vera áfram Íslendingar og fara íslensku leiðina, sem sameinar frelsi og afkomuöryggi. Það eru miklar óheillakrákur, sem reyna að hrekja okkur af þeirri leið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband