19.11.2009 | 17:55
Óskynsamlegar skattahækkanir
Útreikningar þeir, sem birtast í fjölmiðlum á áhrifum skattahækkana, eru allir rangir. Þar er aðeins gert ráð fyrir skammtímaáhrifum skattahækkana. En langtímaáhrif þeirra eru jafnan, að skattstofnar minnka, og þá lækka skatttekjur um leið, því að vitaskuld hafa skattar sterk hegðunaráhrif. Þegar menn greiða helming teknanna af viðbótarvinnu sinni í skatt, dregur úr löngun þeirra til að bæta við sig vinnu. Flestir menn hafa meiri áhuga á að vinna fyrir sig og fjölskyldu sína en fyrir Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur. En um leið og skatttekjur lækka, verður minna afgangs til að fullnægja þeim þörfum, sem ríkið vill sinna, til dæmis kjarabótum til þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir.
Bestu dæmin um langtímaáhrif skattahækkana eru fólgin í samanburði á Sviss og Svíþjóð, sem Victoria Curzon-Price, prófessor í hagfræði í Genf, gerði eitt sinn á ráðstefnu á Íslandi. Í Sviss námu skattar um 30% af landsframleiðslu fyrir það ár, sem Curzon-Price tók dæmi af, og þar voru skatttekjur á mann þá um eitt þúsund Bandaríkjadalir. Í Svíþjóð námu skattar um 60% af landsframleiðslu þetta sama ár, og skatttekjur á mann voru þá svipaðar og í Sviss, um eitt þúsund Bandaríkjadalir á mann. Þetta sýnir það, að lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku.
Ég skrifaði grein í 43. tölublað Vísbendingar um ýmis ósýnileg, en þó raunveruleg áhrif stighækkandi tekjuskatts, og í 45. tölublaði, sem er nýkomið út, skrifa ég um skattleysismörkin, sem eru miklu hærri á Íslandi en víðast annars staðar. Ég held, að lögmál skatta séu þrenn og öll brotin af þeim óheillakrákum, sem nú voma yfir stjórnarráðinu:
- Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku.
- Gæsirnar, sem varpa gulleggjunum, eru flestar fleygar.
- Um skatta gildir hið sama og búskap, að rýja á sauðféð, en ekki flá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Facebook