
Vandlifað gerist fyrir rithöfunda, ef þeim er bannað að sækja sér fyrirmyndir í lífið sjálft. Helga Kress krafðist þess á dögunum, að skáldverk Böðvars Guðmundssonar,
Enn er morgunn, væri innkallað, þar eð höfundur styddist við sögu föður hennar, Brunos Kress málfræðings, sem dvaldist á Íslandi fyrir stríð á styrk frá einni stofnun SS, Ahnenerbe, eins og Þór Whitehead prófessor greinir frá í bókum sínum. Böðvar þekkti vel sögu Brunos Kress, enda var hann um skeið sambýlismaður Helgu. Mér finnst Böðvar gæta sanngirni í þessu verki, sem er mjög vel skrifað. Lítið hefði orðið úr skáldskap Halldórs Kiljans Laxness, hefði honum verið bannað að vinna söguhetjur úr því fólki, sem hann kynntist, og spinna þráð úr örlögum þess. Kristófer Torfdal í
Sölku Völku er til dæmis settur saman úr Ólafi Friðrikssyni og Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Eins og ég benti á í bók minni,
Kiljan, er atburðarás í Sumarhúsum um sumt sótt í svokallað Móakotsmál. Saga Ólafs Kárasonar Ljósvíkings er öðrum þræði saga Magnúsar Hj. Magnússonar. Kaflar í smásögunni Temúdsjín snýr heim eru mjög svipaðir köflum í ævisögu Djengis Khan eftir breska rithöfundinn Ralph Fox, sem féll í spænska borgarastríðinu. Söguhetjur
Íslandsklukkunnar eiga sér raunverulegar fyrirmyndir, ekki aðeins Briem-systur, heldur einnig fólk frá seytjándu og átjándu öld. Allir vita, að Landaljómi í
Atómstöðinni ber svip af Thor Vilhjálmssyni og Garðar Hólm
Brekkukotsannáls af Eggerti Stefánssyni, þótt auðvitað lagi skáldið í hendi sér mannlýsingar eftir lögmálum skáldskaparlistarinnar. Þannig mætti lengi telja. Það kemur úr hörðustu átt, þegar háskólakennari í bókmenntum ætlar sér að banna bókmenntir.