
Egill Helgason spyr þessarar spurningar í
bloggi sínu. Ég skal játa, að ég hef aldrei skilið, hvers vegna það var ekki gert. Auðvitað átti lögreglan að hefja rannsókn málsins, strax og það kom fram. Ég er sennilega eini maðurinn, sem hef heyrt af vörum þriggja af fjórum þátttakendum frásagnir um þetta mál: Ég ræddi það við Davíð Oddsson, Hrein Loftsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Frásögnum þeirra ber ekki saman um öll atriði, en þó má ráða eftirfarandi af þeim um atburðarásina. Þeir Hreinn og Jón Ásgeir voru staddir á fundi ásamt þriðja manni ónefndum, og þar andvörpuðu þeir yfir því að hafa ekki fengið næga fyrirgreiðslu í íslenskum bönkum til vænlegra erlendra fjárfestinga. Kenndu þeir Davíð Oddssyni forsætisráðherra um. Þá sagði Jón Ásgeir upp úr eins manns hljóði, hvort ekki mætti greiða Davíð 300 milljónir króna fyrir að láta af andstöðu við þá. Hreinn svaraði því til, að þá þekkti Jón Ásgeir forsætisráðherra illa, ef hann héldi, að hann væri falur. Síðan fullyrða Hreinn og Jón Ásgeir báðir, að þetta hafi verið sagt í hálfkæringi, en ekki neinni alvöru. Vel getur verið, að svo sé. En Davíð tók þetta auðvitað óstinnt upp, þegar Hreinn sagði honum þetta úti í Lundúnum 26. janúar 2002. Eins og ég skil Davíð, mat hann það þó ekki þannig þá, að Hreinn væri að reyna að múta sér. Hreinn væri aðeins að segja sér, að þetta hefði borið á góma í samtali við Jón Ásgeir. Þótt ég telji, að lögreglan hefði ekki átt að sitja aðgerðalaus hjá, þegar forsætisráðherra upplýsti um svo ískyggilegt mál, jafnvel þótt aðeins væri um að ræða hugmynd, en ekki fullframinn verknað, er óvíst, að rannsókn hefði leitt eitthvað annað og meira í ljós en það, sem ég hef þegar sagt. Þess vegna dó málið eflaust út. Ég hafði sjálfur á sínum tíma ríka samúð með Jóni Ásgeiri, því að mér fannst hann duglegur ungur maður, sem brotist hefði úr fátækt í bjargálnir. Hann væri íslenski draumurinn holdi klæddur. Hann kom vel fyrir og var skynsamur og öfgalaus, þegar ég sat að skrafi við hann, sem var tvisvar. En nú veit ég eftir að hafa fylgst með honum siga fjölmiðlum sínum og
leiguþýjum miskunnarlaust á Davíð Oddsson í mörg ár, svo að ekki sé minnst á fífldirfsku hans í viðskiptum (sem öll þjóðin hefur goldið fyrir), að hann er til alls vís.