Heiðarleiki

Sumir hafa fundið að því, að þjóðfundurinn í Laugardalshöll laugardaginn 14. nóvember geti ekki talað í nafni þjóðarinnar. Auðvitað er það rétt. Ekkert slíkt úrtak fær talað í nafni þjóðarinnar. Til er viðurkenndur farvegur almennra þingkosninga á nokkurra ára fresti, sem veitir kjósendum tækifæri til að skipta um valdsmenn, telji þeir það nauðsynlegt. Þjóðin er víðfeðmara hugtak en kjósendur og spannar allar ellefu aldir Íslandsbyggðar. Þetta hugtak skírskotar til hinna varanlegu hagsmuna Íslendinga á vegferð þeirra. En framtak þjóðfundarmanna er samt lofsvert og virðist hafa tekist vel. Þótt þeir, sem hittust í Laugardalshöll, geti ekki talað í nafni þjóðarinnar, geta þeir talað til þjóðarinnar. Og það hafa þeir gert, svo að eftir er tekið. Þeir krefjast heiðarleika. Þar er ég hjartanlega sammála þeim. Eflaust veldur einhverju um þessa kröfu söknuður eftir þeim stjórnmálaforingja Íslendinga, sem gat sér helst orð fyrir heiðarleika, en hvarf því miður úr stjórnmálum haustið 2005. Hann er Davíð Oddsson.

Þar skiptir ekki mestu máli, að Davíð lét ekki greiða sér biðlaun borgarstjóra, þegar hann varð forsætisráðherra, þótt hann ætti rétt á því, eða að kona hans tók sér aldrei dagpeninga í ferðum þeirra erlendis, þótt þau hjónin ættu rétt á því og aðrir gerðu það óspart. Hitt er mikilvægara, að Davíð lét aldrei annað stjórna sér en eigin samvisku og sannfæringu. Hann var ekki falur eins og svo margir aðrir stjórnmálamenn. Hann var ekki einu sinni falur fyrir 300 milljónir, þótt Jón Ásgeir Jóhannesson segði Hreini Loftssyni og öðrum manni ónefndum, að enginn stæðist þá upphæð. Til dæmis verður Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur henni til ævarandi minnkunar, og hlutur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem uppvísir urðu að því að taka eftir stjórnartíð Davíðs við stórfé frá auðjöfrunum eins og Samfylkingin hafði gert (þótt þessir tveir flokkar gengju ekki eins blygðunarlaust erinda þeirra) er litlu skárri. Fólk krefst heiðarleika. Þess vegna er ekki að furða, að flestir treysta samkvæmt skoðanakönnunum Davíð Oddssyni til að leiða þjóðina í gegnum núverandi þrengingar. Þótt Davíð kunni eins og allir slyngir stjórnmálamenn að gjalda lausung við lygi, eru svik ekki til í munni hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband