Hin gömlu gildi

515262.jpgÁ þjóðfundi í Laugardalshöllinni í dag, 14. nóvember 2009, töluðu margir um, að snúa þyrfti til gamalla gilda. Ég er hjartanlega sammála þeim. Íslendingar týndu sjálfum sér í trylltan dansi í kringum gullkálfinn í fjögur ár, frá 2004 til 2008. Baugurinn, sem þeir drógu sér á hönd í einhverju fáti, spillti þeim. Þeir fáu, sem vöruðu við, voru hrópaðir niður. En hver eru hin gömlu gildi? Hver er hin íslenska hugsun? Ísland byggðist mönnum, sem kunnu ekki við sig annars staðar á Norðurlöndum, af því að þeim þótti þar ekki nægilegt svigrúm. Þess vegna sigldu þeir vestur um haf og hingað heim. Þegar Þórarinn Nefjólsson færði Íslendingum þau skilaboð, að best væri fyrir þá að láta dátt við erlenda konunga, svaraði Einar Þveræingur í frábærri ræðu, að menn vissu, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og væri því best að hafa enga konunga. Varaði hann við öllum tilraunum konunga til skattheimtu. Á Sturlungaöld gengu bændur enn lengra og sögðu, að best væri að hafa enga höfðingja. Að þessum arfi búum við. Þess vegna er menning okkar einstæð. Söguhetja Snorra, Egill Skallagrímsson, var „fyrsti einstaklingurinn“, eins og Nordal orðaði það: Hann var nægilega höfðingjadjarfur til að yrkja gegn guðunum, þegar honum mislíkaði við þá. Þótt Halldór Laxness ætlaði sér að skopast að hetjuhugsjóninni með því að skapa Bjart í Sumarhúsum, var nógu mikið af Agli Skallagrímssyni (og raunar Halldóri sjálfum) í Bjarti til þess, að hann var réttborinn Íslendingur.Var þrjóska Bjarts ekki öðrum þræði festa og lífsþróttur? Snúum til gamalla gilda, sjálfstæðishneigðar, höfðingjadirfsku og hóflegrar tortryggni í garð erlendra herramanna, — líka þeirra, sem búa í Brüssel.

(Ljósmyndin er Mbl.-Kristinn.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband