14.11.2009 | 18:43
Fróðlegar tölur
Í 43. tölublaði Vísbendingar tekur einn talnaglöggasti maður landins, dr. Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur, sér fyrir hendur að reyna að reikna út verðmæti Haga, sem rekur fjölda búða, þar á meðal Hagkaup og Bónus. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé einhvers staðar í kringum 10 milljarða króna virði. Eigandi Haga er sem kunnugt er fyrirtækið 1998, sem skuldar að minnsta kosti 48 milljarða króna. Hagar eru eina eign þessa fyrirtækis. Þá vaknar spurning: Hvernig í ósköpunum fór fyrirtæki, sem átti aðeins 10 milljarða króna eign, að því að safna tæplega 50 milljarða skuldum? Fleiri fróðlegar tölur birtast þessa dagana. Vefurinn amx.is bendir á, að í ársreikningum fyrirtækis Hreins Loftssonar, Austursels, sem liggja fyrir hjá ríkisskattstjóra, er um 8% eignarhlutur í 1998 talinn lítils sem einskis virði. Það er fróðlegt mat og sennilega ekki út í bláinn. Hreinn Loftsson rekur sem kunnugt er DV (=Davíð Vondur) fyrir aðaleiganda 1998, Jón Ásgeir Jóhannesson, og er blaðið notað til þeirra verkefna, sem aðrir fjölmiðlar Jóns Ásgeirs treysta sér ekki til að sinna. Í þriðja lagi segir í samþykktum og skráðum verklagsreglum Nýja Kaupþings, að við endurskipulagningu fyrirtækja eigi að taka tillit til tveggja meginsjónarmiða. Annað er, að reynt verði að stuðla að aukinni samkeppni. Hitt er, að eigendur njóti trausts. Aðaleigandi 1998, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefur hlotið dóm fyrir efnahagsbrot, svo að hann má ekki sitja í stjórnum fyrirtækja fyrr en í fyrsta lagi árið 2012. Hvernig í ósköpunum taka stjórnendur Nýja Kaupþings það einu sinni í mál, að Jón Ásgeir fái að halda þessu fyrirtæki? Hvað er hér á ferðinni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook