„Ég býð! Þið borgið!“

Eggert Stefánsson söngvari var þjóðsagnahetja í lifanda lífi. Hann var fyrirmynd Laxness að Garðari Hólm, sem kallaði sig söngvara án þess að geta sungið. Um Eggert orti einnig Steinn Steinarr að sögn litla kvæðið „Leiksýning“:

Og ég leit fram í salinn

og bjóst við stjórnlausum fögnuði

fólksins.

En þar var enginn

og annarleg kyrrð hvíldi yfir

auðum bekkjunum.

Eggert taldi sig yfir það hafinn að þurfa að vinna fyrir sér, svo að oft skorti hann fé. Þegar hann hitti menn á götum Reykjavíkur, var viðkvæði hans: „Ég býð! Þú borgar!“

crop_500x_932115.jpg

Nú hefur einn maður tekið upp þennan sið Eggerts. Hann er Jón Ásgeir Jóhannesson, öðru nafni Jón Násker. Hann heldur nú á fimmtudagskvöld mikið samsæti í íbúð „sinni“ í Nýju Jórvík, en hún er við Gramercy Park og hefur amx.is birt fjölda mynda úr henni. Jón Násker hefur sem kunnugt er safnað stórkostlegustu skuldum, sem um getur í sögu Íslands, þúsund milljörðum króna, og notað fjölmiðla sína í illskeytta herferð gegn öllum þeim, sem dirfðust að gagnrýna hann eða jafnvel hafa orð á því einu, að hann ætti ekki að gína yfir öllu. Sífellt fleirum er þó ljóst, að hann er söngvari, sem getur ekki sungið. Auðvitað á hann ekki þessa íbúð í Nýju Jórvík, heldur íslenskir skattgreiðendur, þótt einhverjum aulum í íslenskum bönkunum hafi sennilega láðst að taka veð í henni. Þetta samsæti hans á fimmtudagskvöldið er því í boði íslenskra skattgreiðenda. Jón Násker segir í anda Eggerts: „Ég býð! Þið borgið!“ Það er aðeins einn munur: Þeir, sem borguðu fyrir Eggert, fengu sjálfir að sitja veisluna. Það fá ekki þeir, sem borga fyrir veislu Jóns Náskers.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband