Þeir vilja ALLTAF hækka skatta

Sömu mennirnir og vilja nú hækka skatta vegna hinnar skyndilegu
fjárþarfar ríkissjóðs, vildu líka gera það fyrir tveimur árum, á meðan
allt lék í lyndi. Skattahækkanir eru þeim ekki ill nauðsyn, heldur
dygð. Aðrar þjóðir reyna nú að lækka skatta í því skyni að örva
atvinnulífið og auka vinnufýsi. Stjórnvöld á Íslandi bregðast þveröfugt
við. Þau vilja hækka fjármagnstekjuskatt, þótt sá skattur sé í
raun ekki 10%, eins og jafnan er fullyrt, heldur 26,2% (eins og sjá má
með einföldum útreikningi á því, þegar fyrst er greiddur tekjuskattur á
fyrirtæki og síðan greiddur skattur af útgreiddum arði). Stjórnvöld
vilja taka upp stighækkandi tekjuskatt, þótt fullreynt sé, að slíkur
skattur er flókinn í framkvæmd og skilar ekki þeim skatttekjum, sem að
er stefnt. Þau Jóhanna og Steingrímur gleyma því, að margar
gæsirnar, sem verpa gulleggjum, eru fleygar: Fyrirtæki og fjármagn
leita úr háskattalöndum eins og Svíþjóð í lágskattalönd eins og Sviss. Íslensk
stjórnvöld vilja taka upp auðlindaskatt í sjávarútvegi, þótt með því
ráðist þau á blómlega atvinnugrein, sem er að verða grönnum okkar
fordæmi og fyrirmynd. Auðvitað þarf að brúa bilið milli tekna
og gjalda ríkissjóðs. En hin skyndilega fjárþörf er tímabundin.
Stjórnvöld ættu að gera tvennt í stað þess að hækka skatta: selja
ríkisskuldabréf innanlands og minnka fjárþörfina með því að spara
hressilega í rekstri ríkisins, eins og margar aðrar þjóðir hafa þurft
að gera. En til þess þarf röggsamari stjórnvöld með gleggri skilning á lögmálum auðs og eklu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband