8.11.2009 | 23:34
Hvers vegna gelti hundurinn ekki?
Í einni sögu Arthurs Conan Doyle um einkalögreglumanninn skarpskyggna Sherlock Holmes benti söguhetjan á það mikilvæga atriði í sakamáli, að hundurinn gelti ekki. Skýringin var sú, að hundurinn hafði séð eiganda sinn (sem reyndist vera sakamaðurinn). Mér datt þessi saga í hug, þegar ég sá fréttaskýringu Inga F. Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV og sonar Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, formanns bankaráðs Íslandsbanka, um helgina. Hún var um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og dáleika hans við auðmæringa og útrásarvíkinga. Vitnað var í marga fésýslumenn íslenska, sem lofsungu Ólaf, og birtar af þeim myndir. Einnig var rætt við sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem hneyksluðust óspart á þjónustulund forsetans við þotuliðið, og efuðust jafnvel sumir þeirra um, að honum væri lengur sætt á Bessastöðum. En í fréttaskýringuna vantaði einn auðjöfur. Ekkert var haft eftir honum, engin mynd var af honum, ekki var á hann minnst einu orði. Þetta var Jón Ásgeir Jóhannesson, öðru nafni Jón Násker. Var samband Jóns Náskers við forsetann þó nánara en nokkurs annars auðmanns, enda gerði forsetinn af vináttu við hann að synja fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar sumarið 2004, af því að Jón Násker hefði þá væntanlega misst einhver ítök sín á fjölmiðlum. Jón Násker var líka tíður gestur á Bessastöðum, þegar vinir forsetans eins og Martha Stewart þurftu að jafna sig þar í veislufagnaði eftir fangelsisvist fyrir efnahagsbrot. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, sem allir vita raunar, að Jón Násker á DV. Hann notar það til þeirra árása, sem ekki hentar öðrum fjölmiðlum hans að flytja. Sannast á þessari fréttaskýringu Inga F. Vilhjálmssonar hið fornkveðna:
Sá á hund, sem elur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2009 kl. 09:11 | Facebook