Á Náskeri staddur

292x219.jpgEr forsetaembættið nauðsynlegt? Þegar árið 1986, tíu árum áður en Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti, lagði ég til opinberlega, að forsetaembættið yrði lagt niður, svo að sú tillaga mín var ekki bundin honum. Ég lagði þá til, að forseti Alþingis yrði fenginn til að gegna þjóðhöfðingjaskyldum, sem eru einkum að veita viðtöku trúnaðarbréfum erlendra sendiherra og gefa þeim um leið glas af freyðivíni, taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum einu sinni á ári og þá á sumrin, þegar Alþingi situr ekki, og skála þá við þá í freyðivíni, fara í eina opinbera heimsókn eða svo á ári til útlanda og skála þá við nokkra útlendinga í freyðivíni og hengja fálkaorðuna einu sinni eða tvisvar á ári á brjóst nokkurra Íslendinga fyrir að hafa mætt samviskusamlega í vinnuna og gefa þeim um leið glas af freyðivíni. Annað gerir forsetinn í raun og veru ekki, þótt auðvitað geti allir með góðum vilja fundið sér verkefni til að fylla upp í tómt líf sitt, sérstaklega dómgreindarlausir dugnaðarforkar eins og Ólafur Ragnar Grímsson. Sú hugsun læðist raunar stundum að mér, að við hefðum líklega ekki átt að slíta konungssambandinu við Dani 1944, þótt sjálfsagt væri að öðru leyti að segja sambandslagasáttmálanum frá 1918 upp. Hefðum við ekki gert það, þá hefðum við haft sama hátt á og íbúar Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands, nema hvað drottning okkar hefði heitið Margrét og ekki Elísabet, komið hingað einu sinni á ári og klæðst þá þjóðbúningi íslenskra kvenna við hátíðleg tækifæri. Ástæðan til, að konungssambandinu var ekki haldið, var líklega, að Kristján X., konungur Danmerkur og Íslands, var iðulega ruddalegur í framkomu við Íslendinga og því óvinsæll hér. Hannes Hafstein skalf af geðshræringu, þegar hann kom af sínum fyrsta fundi með konungi í öðrum ráðherradómi sínum 1912, og sagði Jóni Krabbe, að Íslendingum myndi bregða, ef þeir vissu, hvaða afstöðu konungur hefði til þeirra. Konungur sýndi Jónasi frá Hriflu dónaskap, þegar hann spurði hann á Alþingishátíðinni, hvort hann væri sá, sem léki Litla-Mússólíni á Íslandi, og rauk þá ítalska sendinefndin á hátíðinni burt í fússi. Með Ólafi Ragnari Grímssyni hefur fokið út í veður og vind það, sem eftir var af virðingu fyrir forsetaembættinu. Stoðaði lítt, þegar hann fékk með fjárhagslegri aðstoð gömlu bankanna Guðjón Friðriksson til að skrifa um sig bók undir heitinu Saga af forseta, en um hana orti skáldið:

Lofgjörð okkur Gaui gaf,

og gott fann nafn á hana.

Sagað hefur hann Óla af

alla vankantana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband