6.11.2009 | 23:58
Samskiptin við Bandaríkin
Lítið hefur farið fyrir merkilegri frétt á Eyjunni. Hún er, að Bandaríkin hafa ekki haft sendiherra á Íslandi í nærri því ár. Þetta er auðvitað engin tilviljun. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, móðgaði vísvitandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, dr. Carol van Voorst, skömmu áður en hún fór frá landinu snemma árs 2009. Henni hafði verið tilkynnt skriflega, að hún fengi fálkaorðuna, eins og oft gerist, þegar sendiherrar kveðja. Á leiðinni til Bessastaða, þar sem hún átti að taka við orðunni, var hringt í hana og henni sagt, að ekkert yrði af orðuveitingunni. Um misskilning hefði verið að ræða. Auðvitað hafði Ólafur Ragnar skipulagt þetta. Hann var að hefna sín á sendiherranum fyrir það, að hún kom því ekki í kring, að hann yrði viðstaddur embættistöku Obama Bandaríkjaforseta, eins og hann sóttist eftir. Þetta voru fádæmi og furðulegt, að orðunefnd eða forsætisráðherra, sem ber að lögum ábyrgð á gerðum forseta, skuli ekki hafa látið þetta til sín taka. Okkur ríður á miklu að hafa góð samskipti við Bandaríkin. Þótt þessi forseti kæmi fram við fulltrúa gamallar vinaþjóðar eins og argasti dóni, var hann kurteisin uppmáluð við þá íslensku skuldakónga, sem ollu bankahruninu, Bónus-menn. Vann hann það jafnvel til sumarið 2004 að synja lögum, sem takmarkað hefðu kost þeirra á að móta almenningsálitið, staðfestingar. Eins og kunnur hagyrðingur orti þá:
Hann vanhæfur kemur að verkinu,
Vigdís plantaði lerkinu
Hvert barn má það sjá,
að Bónus hann á.
Það er mynd af honum í merkinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2009 kl. 12:26 | Facebook