4.11.2009 | 17:30
Óskiljanlegar hugmyndir í Kaupþingi
Vitaskuld skilja allir skynsamir menn, að bankastjórar nýju ríkisbankanna glíma við margvísleg vandræði í viðleitni sinni til að ávaxta það pund, sem þeim er trúað fyrir, hámarka verðmæti eigna bankanna. Stundum þurfa þeir að afskrifa eitthvað af skuldum í því skyni að endurheimta afganginn. En mikilvægt er, að þeir fari að settum lögum og reglum, svo að þeir eigi ekki yfir höfði sér réttvísina síðar meir eins og talað er um, að bankastjórar gömlu einkabankanna eigi. Í starfsreglum Kaupþings eru skýr ákvæði um, að áhrif ráðstafana bankans á samkeppni séu metin við ákvarðanir. Nú er rætt um, að fyrri eigendur eignist Haga (Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir) fyrir sjö milljarða króna, en fimmtíu milljarðar séu afskrifaðir. Þetta hefur tvenns konar neikvæð áhrif á samkeppni. Í fyrsta lagi eru skuldir samkeppnisaðila ekki afskrifaðar. Hvers vegna eiga þeir að sæta þessu? Í öðru lagi eru Hagar nú þegar með um 60% hlutdeild í smásöluverslun. Er eðlilegt að stuðla að því, að svo verði áfram? Einnig eru í starfsreglum Kaupþings ákvæði um, að nýir eigendur fyrirtækja, sem bankinn þarf að endurfjármagna, skuli njóta trausts. Hvernig geta fyrri eigendur Haga notið trausts? Þeir hafa fengið dóma fyrir efnahagsbrot og reyndu að stjórna Íslandi úr farsímum sínum, þar sem þeir voru staddir í einkaþotum og á lystisnekkjum á þeytingi um heiminn. Þeir voru skuldakóngar Íslands. Allir vita, hvernig það fór. Sumir spyrja, hvers vegna Kaupþing noti ekki tækifærið og skipti fyrirtækinu upp í því skyni að auka samkeppni. Góð rök eru fyrir því, en eflaust telja Kaupþingsmenn, að með því sé verðmæti veða þeirra í fyrirtækinu ekki hámarkað. Aðrir spyrja, hvers vegna bankinn geri ekki greinarmun á stjórnendum og starfsfólki fyrirtækisins annars vegar, sem er eflaust langflest ágætt fólk, og fyrri eigendum hins vegar. Af hverju finnur bankinn ekki nýja fjárfesta, sem ganga til liðs við núverandi stjórnendur og starfsfólk, jafnvel í almennu útboði hlutafjár, um að reka þetta myndarlega fyrirtæki? Stjórnendur Haga og starfsfólk eiga ekki að gjalda fyrir fyrri eigendur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook