3.11.2009 | 11:55
Fulltrúaráðsfundur
Ég var á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík mánudaginn 2. nóvember. Þar talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um stjórnmálaviðhorfið. Hann kom mjög vel fyrir, flutti ræðu sína blaðlaust, rólega og skynsamlega, var málefnalegur og kurteis, en þó fastur fyrir. Bjarni býður af sér góðan þokka, en frá honum stafar líka traust. Hann furðaði sig á því, að forystumenn stjórnarflokkanna tóku alls ekki undir með honum á þingi Norðurlandaráðs á dögunum, þegar hann gagnrýndi frændþjóðir okkar fyrir að setja það skilyrði fyrir lánveitingum í nauðum okkar, að við létum undan Bretum í Icesave-málinu. Við megum aldrei gleyma því, að kröfur Breta eiga sér enga lagastoð. Hvergi segir í lögum, reglum eða samningum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Bretar ollu sjálfir miklu um íslenska bankahrunið, þegar þeir aðstoðuðu ekki Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings, einn breskra banka og settu Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana. Því miður hafa forystumenn stjórnarflokkanna ekki lært eins og Bjarni Benediktsson af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherranum, sem sagði: Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur. Einnig flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri eldlega hvatningarræðu á fundinum. Hún stendur sig afar vel í starfi. Sjálfstæðisflokkurinn er fullsæmdur af þessum tveimur ungu forystumönnum. Það er þeim styrkur, ekki veikleiki, að Davíð Oddsson skuli enn láta til sín taka og njóta mikils trausts, eins og skoðanakannanir sýna. Bjarni Benediktsson fyrri var aldrei hræddur við Ólaf Thors, og Ólafur Thors var aldrei hræddur við Jón Þorláksson. Þar sem næg er sólin, stendur enginn í skugga neins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook