Sjálfstæðisflokkurinn er á miðjunni

styrmir-gunnarsson.jpgStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar ágæta hugvekju í Sunnudagsblað Moggans. Hann segir þar, að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að færa sig inn á miðjuna. Þar sé fylgið. Meðal annars nefnir Styrmir, að flokkurinn þurfi að marka þá stefnu í velferðarmálum, að velferðaraðstoð sé rausnarleg, en nái aðeins til þeirra, sem þurfi á henni að halda. Þess vegna beri að tekjutengja ýmsar bætur í  meira mæli. Ég er hjartanlega sammála Styrmi. En þetta er það, sem gert var á hinu miklu umbótaskeiði 1991–2004. Þá voru til dæmis barnabætur tekjutengdar í miklu meira mæli en í Svíþjóð. Í Svíþjóð fær hvert barn sömu bætur óháð efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Á Íslandi fara bæturnar eftir efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Þess vegna fær einstæð móðir með fimm börn miklu hærri bætur á Íslandi en í Svíþjóð, þótt í heild verji Svíar meira fé í barnabætur en Íslendingar. Ég tel, að íslenska aðferðin sé miklu betri. Annað dæmi er ellilífeyrir. Hér voru myndaðir öflugir lífeyrissjóðir, svo að á Norðurlöndum árið 2004 voru lífeyristekjur á mann hæstar á Íslandi. Hér var þá líka fátækt meðal aldraðra minni en alls staðar annars staðar í Evrópu. Með hinni íslensku leið, sem mörkuð var 1991 og var hvorki sænsk né bandarísk, var mynduð hæfileg sátt frjálshyggju og jafnaðarstefnu, sköpunar verðmætanna og skiptingar þeirra. Menn hafa ekki gert sér fulla grein fyrir því, hversu beinskeyttri velferðarstefnu ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar fylgdu, af því að í eyrum þeirra hefur glumið áróður þeirra Stefáns Ólafssonar, Þorvaldar Gylfasonar og Indriða H. Þorlákssonar. Ég rek ýmsar rangfærslur þeirra Stefáns, reikningsskekkjur og yfirsjónir í verki, sem ég hef í smíðum og nefnist „Vék Ísland af hinni norrænu leið 1991–2004?“ Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að færa sig inn á miðjuna, því að hann er þegar þar. Hann þarf hins vegar að útfæra stefnu sína og kynna hana betur. Þar er hugvekja Styrmis góð leiðsögn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband