Þjóðarspegillinn

Ég flutti föstudaginn 30. október 2009 fyrirlestur á Þjóðarspeglinum svonefnda í Háskóla Íslands, en þar kynntu fræðimenn í félagsvísindum niðurstöður rannsókna sinna. Fyrirlestur minn bar heitið „Pólitískir pílagrímar í Kína“ og var um boðsferðir Íslendinga til kínverska alþýðulýðveldisins 1952–1964. Þar rakti ég í stuttu máli atburðarásina í Kína fyrstu fimmtán árin frá valdatöku kommúnista þar haustið 1949, en eftir það hófust fjöldamorð, sem séra Jóhann Hannesson trúboði sagði frá í greinaflokkum í Morgunblaðinu sumarið 1952. Íslenskir kommúnistar tóku sér hins vegar ótrauðir stöðu við hlið skoðanasystkina sinna í Kína, og Jóhannes úr Kötlum fór þangað austur haustið 1952 og orti lofkvæði um kínverska kommúnista, sem „bjóða heiminum óð lífsins — og Maó er forsöngvarinn“. Minnti ég í því sambandi á hið ilræmda lofkvæði um Stalín, sem Halldór Kiljan Laxness sneri á íslensku, þar sem Stalín var kallaður „söngvari þjóðvísunnar“. Það var líka ótrúlegt, að íslenskir ferðalangar fullvissuðu landa sína um, að kínverskum kommúnistum hefði tekist að brauðfæða þjóðina, á sama tíma og einhver versta hungursneyð mannkynssögunnar skall á Kínverjum árin 1959–1962, eins og segir frá í Svartbók kommúnismans. Fyrirlestur minn er prentaður í riti ráðstefnunnar, en hann er þáttur í einu rannsóknarverkefni mínu um þessar mundir, Íslenskum kommúnistum 1918–1998.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband