30.10.2009 | 16:51
Frábært framtak
Guðrún Pétursdóttir á lof skilið fyrir framtak sitt, en hún afhenti Borgarskjalasafni einkaskjalasafn afa síns, Ólafs Thors, miðvikudaginn 28. október: 72 öskjur með bréfum, blaðagreinum, ræðum, úrklippum, minnisblöðum, ljósmyndum, hljóðsnældum og jafnvel kvikmyndum. Þetta er mikill fengur fræðimönnum og raunar öllum áhugamönnum um sögu. Ólafur Thors var stórbrotinn einstaklingur, alþýðlegur höfðingi, gamansamur alvörumaður, þjóðsagnahetja í lifanda lífi. Hann var lengst allra formaður Sjálfstæðisflokksins, 19341961, og myndaði fimm ríkisstjórnir. Hann var ásamt Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni einn hinna miklu stjórnmálamanna tuttugustu aldar á Íslandi.
Mörg tilsvör Ólafs sýna, hversu lífsreyndur maður og vitur hann var, en einnig orðheppinn. Þegar hann var eitt sinn skammaður á fundi, svaraði hann: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að skamma mig. Ég er löngu kominn með sigg á sálina. Frægt er, þegar flokksbróðir Ólafs, Pétur Ottesen, vandaði um við hann snemma á þingmannsferli Ólafs (sem hófst 1926): Þú mætir allt of illa á nefndarfundi. Þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið! Ólafur svaraði að bragði: Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni! Þegar þingmenn kommúnista, Einar Olgeirsson og félagar hans, komu á sinn fyrsta þingfund haustið 1937, var þeim fálega tekið, nema hvað Ólafur gekk til þeirra, rétti fram höndina og sagði: Ekki vildi maður nú fá ykkur hingað inn, en fyrst þið eruð komnir, þá verið þið velkomnir! Ólafur létti einnig þungt andrúmsloftið, þegar Charles Howard Smith gekk á fund ríkisstjórnarinnar 10. maí 1940 og tilkynnti um hernám Breta: Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til! Ólafur myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944 með kommúnistum og Alþýðuflokki. Hann var snöggur upp á lagið, þegar bandarískur sendimaður spurði hann: Hvernig stendur á því, að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér? Ólafur svaraði: Þeir höfðu svo góð meðmæli. Sendimaðurinn spurði: Frá hverjum? Ólafur svaraði: Frá Roosevelt og Churchill.
Kunnar eru líka sögur af Ólafi í kosningunum 1946, þegar hann naut sín hvað best sem forsætisráðherra Nýsköpunarstjórnarinnar. Fundarmaður kallaði fram í hjá honum: Það er ég viss um, að Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu. Ólafur svaraði að bragði: Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margir gera. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur (stjúpafi núverandi menntamálaráðherra og þeirra bræðra Sverris og Ármanns Jakobssona) var í framboði gegn Ólafi í Gullbringu- og Kjósarsýslu í þeim kosningum. Hann sagði á fundi: Kapítalistar hugsa aðeins um peningana. Við sósíalistar hugsum um mennina. Ólafur greip fram í: Já, einmitt. Kapítalistar læsa peningana inni, en sósíalistar mennina. Þegar nokkrir kommúnistastrákar ætluðu að gera aðsúg að Ólafi fyrir utan samkomuhús í Keflavík fyrir þingkosningarnar 1953, vatt hann sér út úr bíl sínum, gekk að strákunum og spurði: Hvar get ég pissað, strákar? Glúpnuðu þeir við.
Ég gæti sagt margar fleiri sögur af Ólafi, en verð hér að láta staðar numið. En því er við að bæta, að Ingiríður Danadrottning sagði Davíð Oddssyni það eitt sinn í kvöldverði, að skemmtilegri mann hefði hún ekki hitt en Ólaf Thors, þegar hann var forsætisráðherra og þau Friðrik konungur komu til Íslands í opinbera heimsókn snemmsumars 1956.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.10.2009 kl. 14:43 | Facebook