Tvö dæmi um hlutdrægni RÚV

Ríkisútvarpið hefur lögbundna skyldu til að gæta fyllstu óhlutdrægni. Skýringin er sú, að við erum öll skylduð til að greiða til þess. Við getum ekki sagt upp áskrift að því, ef við erum óánægð með það, eins og við getum að Morgunblaðinu, Stöð tvö eða DV. Með þessari lagaskyldu um óhlutdrægni er auðvitað ekki átt við, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hljóti að vera skoðunarlausir, heldur hitt, að þeir gæti sæmilegs jafnvægis í því, sem kemur fram. Sé einn þáttastjórnandi vinstrisinnaður, þá sé annar hægrisinnaður, og svo framvegis. Ég er ekki einn um að telja, að Ríkisútvarpið hafi síðustu misserin ekki gegnt þessari lagaskyldu sinni. En þá er oft kallað eftir dæmum. Ég nefni tvö lítil dæmi úr mínu minni, sem einhverjir fjölmiðlamenn mættu rannsaka betur. Annað var á menningarnótt Reykjavíkurborgar í sumar. Þá vildu sjónvarpsmenn ekki slást í för með borgarstjóranum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þegar hún gekk um Reykjavík, því að hún væri stjórnmálamaður. Hins vegar heimsóttu þeir Dag Bergþóruson-Eggertsson í vöfflukaffi heim til hans! Ekki veit ég, hvort það var vegna þess, að þeir töldu hann ekki stjórnmálamann, en ef svo er, þá höfðu þeir auðvitað ýmislegt til síns máls. Gauti, bróðir Dags, er miklu meiri stjórnmálamaður, eins og sést á daglegu bloggi hans. Hitt dæmið um hlutdrægni Ríkisútvarpsins var af frásögn þess af umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í októberbyrjun. Í kvöldfréttum þann dag var ræða ráðherrans endursögð athugasemdalaust. En fréttastofan hafði tafarlaust leitað til erlends „sérfræðings“ um þá skoðun Bjarna Benediktssonar, að hugsanlega bæri að segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og taldi „sérfræðingurinn“ öll tormerki á því. Var þessi „frétt“ flutt í sama fréttatíma og sagt var frá ræðu Bjarna. Þannig var reynt að ómerkja málflutning Bjarna tafarlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband