24.10.2009 | 01:15
Strákur í stórri ætt
Ein lítilmótlegasta blaðagrein síðustu missera birtist fyrir skömmu í Morgunblaðinu. Þar kvað Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur Thors-ættina of göfuga fyrir Björgólf Guðmundsson (sem kvæntur er dótturdóttur Thors Jensen). Guðmundur Andri birti þessa grein, eftir að Björgólfur hneig fjárhagslega í valinn í bankahruninu mikla og lá óvígur. En Guðmundur Andri þagði alla þá tíð, er völlurinn var sem mestur á Björgólfi. Hvað sem um rekstur Landsbankans gamla má segja, var Björgólfur Guðmundsson á uppgangstíma sínum sannkallaður höfðingi, sem gaf af mikilli rausn til líknar- og mannúðarmála og ekki síður til lista og vísinda. Nú hefur Guðmundur Andri birt grein á Netinu, þar sem hann segir skilið við Morgunblaðið og kvartar undan Davíð Oddssyni, eins og hann gerði raunar iðulega forðum, á meðan hann var Baugspenni og Baugsfeðgar ráku herferð sína gegn Davíð. Guðmundur Andri segist vera hræddur um, að Morgunblaðið verði ekki margradda með Davíð sem ritstjóra. En sannleikurinn er sá, að íslenskir fjölmiðlar voru eintóna, áður en Davíð kom á vettvang. Þeir höfðu allir sömu stefnu, bergmáluðu hver annan. Annars fer illa á því, að Guðmundur Andri Thorsson vandi um við fjölmiðla. Hann situr í ritnefnd veftímaritsins Herðubreiðar. Ritstjóri þess tímarits skrifaði nýlega ósannindi um mig. Þegar ég skoraði á þann mann að finna þeim stað eða leiðrétta þau ella, svaraði sá skætingi einum. Ég sneri mér þá til ritnefndarmannsins Guðmundar Andra, sem neitaði að eiga nokkurn hlut að því að rétta hlut minn, en notaði tækifærið til sinna venjulegu stílæfinga, sem hann birti síðan hróðugur. Hann vildi bersýnilega ekki hafa það, sem sannara reyndist. Hann ætti því að hafa sem fæst orð um vandaða blaðamennsku. Eins og Bretar segja: If you want a better world, get busy on your own little corner.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:17 | Facebook