
Við þurfum öll að greiða gjald til Ríkisútvarpsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sú er skýringin á því, að lagaskylda hvílir á Ríkisútvarpinu um að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögnum, fréttaflutningi og umræðum af skoðunum. Slík óhlutdrægni felst ekki í skoðanaleysi, heldur í því, að flestar skoðanir fái að koma fram. (Ég er ekki viss um, að allar skoðanir eigi að fá að koma fram í ríkisútvarpi, til dæmis gyðingahatur, en það er annað mál.) Þess vegna brýtur Egill Helgason vitanlega ekki lög með því að hafa skoðanir. Hann má hafa þær mín vegna. Egill hefur hins vegar glatað trúverðugleika sem þáttastjórnandi með hinu dæmalausa bloggi sínu, þar sem hann eys svívirðingum yfir fólk fyrir 200 þúsund krónur á mánuði. Stjórnendur Ríkisútvarpsins láta eins og þetta blogg komi þeim ekki við, þótt það beri sama nafn og umræðuþáttur hans. Öðru vísi mér áður brá. Í
Morgunblaðinu 25. september 2005 birtist eftirfarandi frétt:
Sigmundur Sigurgeirsson, starfsmaður Ríkisútvarpsins (RÚV) á Suðurlandi, hefur fengið áminningarbréf frá lögfræðingi RÚV vegna skrifa sinna á bloggsíðu um Baugsmálið í sumar og verður ekki látinn vinna við fréttaflutning fyrir fréttastofu Útvarpsins í bili samkvæmt upplýsingum frá RÚV. Hann sinnir samt áfram starfi sínu sem umsjónarmaður svæðisútvarpsins á Suðurlandi. Þegar málið kom upp síðla ágústmánaðar var það mat Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs RÚV, og Óðins Jónssonar fréttastjóra að með skrifum sínum hafi Sigmundur sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu. Bogi Ágústsson staðfesti við Morgunblaðið að Sigmundur myndi ekki vinna fyrir fréttastofu Útvarps í bráð.