Björn Bjarnason er miklu betri þáttastjórnandi í sjónvarpi en
Egill Helgason. Viðmælendur hans á ÍNN eru jafnan menn, sem hugsa af alvöru um hin ýmsu mál og eru vel að sér um þau, þótt vitaskuld séu þeir ekki alltaf sammála stjórnandanum. Umræður þar eru rökræður frekar en kappræður. Sífellt fleiri horfa á þessa þætti. Björn er vel menntaður maður með mikla reynslu af blaðamennsku og stjórnmálaafskiptum. Hann er lestrarhestur, sem fylgist vel með innanlands sem utan. Fróðlegt er einnig að bera saman dagleg blogg þeirra Björns og Egils. Björn er þar kurteis, en fastur fyrir. Egill eys svívirðingum yfir þá, sem honum eru ósammála (og fær fyrir 200 þúsund krónur á mánuði). En hvers vegna þætti mörgum fráleitt, að Björn Bjarnason stjórnaði umræðuþætti á sunnudögum í Ríkisútvarpinu? Áreiðanlega vegna þess að hann er kirfilega merktur einum stjórnmálaflokknum. Ríkisútvarpið á að lögum að gæta óhlutdrægni. En Egill Helgason er miklu kirfilegar merktur en Björn. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni, Sjálfstæðisflokknum og íslenskum kapítalisma. Hann er orðinn að búktalara Þorvaldar Gylfasonar, bæði í þáttum sínum og bloggi. Þeir Egill, Þorvaldur og Jón Þórisson arkitekt hittast reglulega til að skipuleggja herferð sína (og hefur stundum sést til þeirra). Þeir fengu Evu Joly til landsins (á kostnað hvers?) og töldu ráðamenn á að gera hana að sérstökum ráðgjafa um rannsóknir á efnahagsbrotum, þótt hún stefni þeim rannsóknum í voða með ógætilegum ummælum. Þeir fengu einnig Joseph Stiglitz til landsins (á kostnað hvers?). Jón Þórisson, sem var ráðinn aðstoðarmaður Evu Joly, skipulagði þá heimsókn. Bæði Joly og Stiglitz komu fram í þáttum Egils, og sögðu sumt skynsamlegt að mínum dómi og annað ekki, eins og gengur. Mín vegna má Egill Helgason hafa hvaða skoðanir og reka hvaða herferð sem hann vill. En ég vil hafa rétt á að segja fjölmiðli með honum upp eins og ég get sagt
Morgunblaðinu,
DV eða Stöð tvö upp. Enginn neyðir mig heldur til að greiða áskrift að ÍNN eins og ég þarf að gera að Ríkisútvarpinu.