Gauti hleypur á sig

albumimage_ashx.jpgÞað er leiðinlegt, þegar ungir og gáfaðir menn eins og hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson, bróðir Dags B. Eggertssonar og ákafur Samfylkingarmaður eins og hann, hlaupa á sig, hvort sem því ráða pólitískir fordómar eða ónógar upplýsingar. Gauti hélt því nýlega fram, að mestu mistökin í bankahruninu hefðu verið 300 milljarða króna skyndilán Seðlabankans til bankanna á síðasta sprettinum án fullnægjandi veða. Þetta hafa áróðursmeistarar Samfylkingarinnar bergmálað. Nú hefur Stefán Svavarsson, fyrrverandi aðalendurskoðandi Seðlabankans, leiðrétt þessa menn (í Morgunblaðinu í dag). Í fyrsta lagi voru þetta 250 milljarðar króna. Í öðru lagi voru þessar lánveitingar ekki til viðskiptabankanna þriggja, heldur til minni fjármálastofnana, þótt þær stöfuðu hins vegar umfram allt af lausafjárskorti bankanna og á móti þessum lánveitingum væru tekin veð í bankaskuldabréfum. Í þriðja lagi taldi Seðlabankinn sig vera að leysa þennan lausafjárskort bankanna til skamms tíma, en ekki að veita þrautavaralán vegna eiginfjárvanda. Með öðrum orðum taldi bankinn sig vera að halda eðlilegu greiðsluflæði gangandi, eins og honum er skylt að lögum, en ekki vera að afstýra gjaldþroti bankanna. Samkvæmt bókum bankanna rétt fyrir hrun áttu þeir ekki í neinum eiginfjárvanda. Skuldabréfin frá þeim, sem minni fjármálastofnanir notuðu sem veð, áttu því að vera traust. Stefán rifjar upp, að það var hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því, að eigið fé bankanna væri nægilegt, en Stefán telur það hafa verið til þess vanbúið, enda bendi margt til þess, að bankarnir hafi ofmetið eignir sínar. Stefán minnir einnig á, að lausafjárkreppa bankanna var angi af alþjóðlegri lausafjárkreppu, og í þessari alþjóðlegu kreppu kom í ljós, að ýmsu er áfátt í mælingum og mati á afkomu banka og efnahag, og keppast erlendir sérfræðingar nú við að endurskoða þetta regluverk.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband