
Fróðlegt er, að búist er við því, að 90% innheimtist af forgangskröfum í gamla Landsbankann. Það er meira en gert var ráð fyrir. Eignir bankans (til dæmis kröfur hans á erlenda skuldunauta og veð að baki þeim kröfum) hafa reynst vera meira virði en margir hugðu. En þá má halda þeim þræði áfram og spyrja, hvers virði bankarnir hefðu orðið, ef Bretar hefðu ekki gengið eins hart fram gegn þeim og raun bar vitni. Hvernig hefði Singer & Friedlander, dótturbanka Kaupþings í Lundúnum, vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu bjargað honum eins og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum haustið 2008? Hvernig hefði Landsbankanum vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu ekki sett hann á lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana? Auðvitað hefði báðum bönkunum orðið miklu meira úr eignum sínum. Bretar bera mikla ábyrgð á bankahruninu íslenska, eins og er loks að renna upp fyrir Íslendingum. Með því ætla ég síður en svo að afsaka íslensku bankana, sem sýndu mikinn glannaskap í nokkur ár fyrir hrun, meðal annars vegna þess að þeir höfðu ekki eðlilegt aðhald af hugrökkum stjórnmálamönnum, gagnrýnum fjölmiðlum, röggsömu fjármálaeftirliti, virðulegu forsetaembætti og sanngjörnum dómstólum, allt þetta vantaði. En það sést betur og betur þessa dagana, hversu herfilega hinir óhæfu samningamenn Íslendinga, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, sömdu af sér um Icesave-málið. Raunar sömdu þeir ekki, heldur létu sér nægja að snúa heim með reikninginn frá Bretum og framvísa honum. Þess í stað hefðu íslensku samningamennirnir vitanlega átt að krefjast þess, að Bretar bættu það tjón, sem þeir ollu íslensku bönkunum með fautaskap sínum. Ég yrði ekki hissa, þótt það tjón, sem Bretar ollu Landsbankanum, næmi svipaðri upphæð og á vantar, til þess að greiða mætti allar forgangskröfur í bankann. Það er síðan eftir öðru, að þeir krefjast vaxta af lánum, sem þeir veittu óumbeðnir til að mæta tjóni, sem þeir ollu að nokkru leyti sjálfir! Og hvers vegna vilja þeir alls ekki fara dómstólaleiðina? Við hvað eru þeir hræddir? Þetta hefðu íslenskir ráðamenn átt að vera óþreytandi við að skýra út fyrir þjóðarleiðtogum erlendis allt þetta ár í stað þess að eyða tímanum í smákrytur.