Nóbelsverðlaunin í hagfræði

3559.jpgEflaust hefur nefndin, sem úthlutar nóbelsverðlaunum í hagfræði, komið mörgum á óvart með því að veita þau þetta árið Oliver Williamson og Elinor Ostrom, því að þau hafa skrifað um margt annað en hefðbundin viðfangsefni hagfræðinga. Ég þekki ekki mikið til verka Williamsons, þótt ég hafi gluggað lauslega í þau, en hef deilt áhuga með Ostrom á almenningum (e. commons). Þetta eru gæði, sem margir nýta saman. Dæmi um slíka almenninga eru beitarlönd á hálendi Íslands og fiskistofnar á Íslandsmiðum. Hættan er sú, eins og Ostrom og aðrir benda á, að samnýting verði ofnýting. Ef tuttugu bændur í íslenskri sveit reka til dæmis sauðfé saman á fjall, þá er hætt við, að einhver einn þeirra freistist til að reka of marga sauði þangað. Ef hann er látinn afskiptalaus, þá hirðir hann einn ágóðann, en kostnaðurinn (ofbeitin) deilist á hann og nítján aðra. Þegar hinir bændurnir fylgja fordæmi hans, verður afleiðingin ofnýting. Þess vegna ákváðu Forn-Íslendingar að taka upp ítölu, sem svo var kölluð: Hver bóndi fékk aðeins að telja tiltekna tölu fjár í almenninginn. Nútímamenn myndu orða það svo, að hver bóndi hafi fengið sinn kvóta af sauðfé að reka á fjall. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor (sem hefur starfað með Williamson og Ostrom) hefur í ágætum ritgerðum skýrt út hin hagfræðilegu rök fyrir ítölunni. Í raun og veru er sama hugsun að baki kvótakerfinu í sjávarútvegi. Ef aðgangur er ótakmarkaður að takmörkuðum gæðum eins og fiskistofnum, þá verða þau ofnýtt. Þess vegna fengu útgerðarmenn hver sinn kvóta eins og bændur forðum hver sína ítölu. Þannig var komið í veg fyrir, að samnýtingin yrði ofnýting. Íslenska kvótakerfið er ekki fullkomið, en það er skársta kerfið, sem enn hefur fundist til að stjórna úthafsveiðum. Þar eð útgerðarmennirnir hafa hag af því, að auðlindin skili sem mestum arði til langs tíma (af því að þeir hirða þennan arð), nýta þeir hana gætilega. Framlag Ostrom, sem er stjórnmálafræðingur að menntun, er aðallega að greina fræðilega og kreddulaust margvíslegar aðferðir til að nýta almenninga. Hún er vel að verðlaununum komin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband