Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn misnotaður

Af einhverjum ástæðum halda sumir Íslendingar, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé sérstakur bólstaður frjálshyggjumanna. Því fer fjarri, eins og ég hef stundum bent á opinberlega. Þar starfa að vísu margir vel menntaðir hagfræðingar, og hagfræðingar skilja menntunar sinnar vegna betur en margir aðrir hugmyndina um frjálst og sjálfstýrt hagkerfi, þar sem menn græða hver á öðrum: Við kaupum vín af Spánverjum og seljum þeim fisk, af því að arðbærara er að veiða fisk á Íslandsmiðum og rækta vín á Spánarhlíðum en öfugt. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eins og Alþjóðabankinn aðallega vígi hins alþjóðlega gáfumannafélags, sem þeytist á fyrsta farrými milli landa, skrifar langar skýrslur og skrafar margt á fundum með stjórnvöldum, en horfir vorkunnaraugum á fátæklingana út um gluggann. Þetta er fólk, sem veifar prófskírteinum úr virðulegum skólum og talar mörg tungumál, en hefur reiknað sig út úr heiminum í stað þess að lifa sig inn í hann. Ég veit ekki um neina þjóð, sem brotist hefur úr fátækt í bjargálnir fyrir orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en ég get nefnt margar þjóðir, sem hafa gert þetta í krafti frjálsra viðskipta: Fyrst skal fræga nefna Íslendinga í lok nítjándu aldar, síðan ýmsar þjóðir eftir seinni heimsstyrjöld, til dæmis í Taívan, Suður-Kóreu, Hong Kong og Singapúr. Fátækar þjóðir þurfa atvinnufrelsi og eignarrétt, ekki skrif og skraf gáfumannafélagsins. Ég man enn, þegar ég fylgdist á frjálshyggjuþingi í Vancouver í Kanada með kappræðum þeirra Georges Shultz, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna (og áður hagfræðiprófessors í Chicago), og Stanleys Fischer, sem var um skeið aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Shultz hélt því fram, að sjóðurinn ætti nánast engan rétt á sér. Hann aðstoðaði slæma stjórnmálamenn við að halda áfram mistökum sínum. Hvað sem því líður, var upphaflegt hlutverk sjóðsins að auðvelda aðildarríkjum greiðsluaðlögun og sveiflujöfnun. Hér á Íslandi hefur sjóðurinn hins vegar aðeins birst sem óvæginn handrukkari fyrir Breta og Hollendinga. Starfsmenn hans hljóta að skammast sín fyrir að vera misnotaðir á þennan hátt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband