
Það er sorglegt til þess að vita, að á þessum örlagatímum skuli óframbærilegur stjórnmálamaður gegna starfi forsætisráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir sat í ríkisstjórn í átján mánuði fyrir hrun, frá vori 2007, en varaði þá aldrei við neinu og hafði ekkert fram að færa annað en kröfur um aukin framlög til eigin áhugamála. Eftir að hún tók við starfi forsætisráðherra, komst ekkert annað að vikum og mánuðum saman en að reka gamlan stjórnmálaandstæðing (en um leið ágætan samstarfsmann sinn), Davíð Oddsson, úr embætti seðlabankastjóra. Jóhanna er mannafæla. Hana skortir sjálfstraust, enskukunnátta hennar er bágborin, og hún veigrar sér við að hitta erlenda þjóðarleiðtoga. Við þessar aðstæður ættu forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands vitanlega að vera á þönum milli landa til að tala máli Íslendinga við stjórnmálaforingja og fjármálafrömuði. Þess í stað hniprar Jóhanna sig saman niðri í stjórnarráði og sendir jafnóðum til fjölmiðla álitsgerðir frá stofnunum eins og Seðlabankanum án vilja og vitundar fjármálaráðherra síns og seðlabankastjóra, en þessar álitsgerðir eru helst til þess fallnar að styrkja samningsaðstöðu andstæðinga okkar, Breta og Hollendinga, í Icesave-málinu. Fát, fum og ráðleysi einkenna hana. Hún bregst eins við og aðrir, sem vita ekki sitt rjúkandi ráð: hótar og reiðist. Hún man ekki einu sinni, hvað hún hefur áður sagt, svo að hún flækist í mótsögnum. Nú segir hún, að afgreiða verði Icesave-málið til að fá lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum. En 13. júlí aftók hún með öllu í þinginu (vegna fyrirspurnar frá Illuga Gunnarssyni), að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tengdi saman Icesave-málið og lánafyrirgreiðslu. Og 10. ágúst vísaði hún því á bug í þinginu (vegna fyrirspurnar frá Birgi Ármannssyni), að Norðurlöndin settu einhver skilyrði um afgreiðslu á Icesave-málinu, áður en þau veittu lán til Íslands.