4.10.2009 | 17:38
Þing ungra jafnaðarmanna
Ég flutti framsögu ásamt Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðingi og heimspekingi, á þingi ungra jafnaðarmanna sunnudaginn 4. október um, hvaða hugmyndir ættu að verða okkur leiðarljós út úr þrengingunum. Ég minnti á kenningu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem Kristrún og aðrir Samfylkingarmenn hafa mjög hampað. Samkvæmt henni er það skipulag réttlátt, þar sem hagur hinna bágstöddustu er eins góður og hann getur framast orðið. Með öðrum orðum réttlætist tekjumunur af því einu eftir kenningu Rawls, að lágtekjufólk hagnist á því. Síðan spurði ég, hvað veruleikinn segði okkur um þetta. Í mælingum á vísitölu atvinnufrelsis (index of economic freedom), kemur skýrt fram, að þær þjóðir, sem búa við víðtækast atvinnufrelsi, njóta um leið bestu lífskjaranna og þá líka tekjulægstu hóparnir þar. Einnig er merkilegur samanburður sænska hagfræðingsins Fredriks Bergström á hinum 50 ríkjum Bandaríkjanna og hinum 25 ríkjum Evrópusambandsins, en samkvæmt honum eru lífskjör í Svíþjóð svipuð og í fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Arkansas og Mississippi. Í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware og Connecticut, eru lífskjör hins vegar svipuð og í því Evrópuríki, þar sem lífskjör eru langbest, Lúxemborg. Enginn getur efast um þessar staðreyndir, enda kaus Kristrún að leiða þær hjá sér. Í fyrirspurnum utan úr sal var hins vegar bent á, að slíkar mælingar væru ófullkomnar, og tók ég undir það, en minnti á, að við höfum með þeim þó eitthvað í höndunum og ekki aðeins orðin tóm.
Umræður voru kurteislegar og málefnalegar. Ég óskaði Jóhönnu Sigurðardóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar, til hamingju með daginn og hnykkti á því, að auðvitað hlytu allir heilbrigðir menn að vilja persónulega velgengni stjórnmálaandstæðinga. Stöð tvö sagði frá fundinum.
Einnig talaði ég sama dag við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF, en menn undir forystu Christhards Läpple eru þar að gera enn einn þáttinn um bankahrunið íslenska. Þar viðurkenndi ég, að framferði íslenskra bankamanna hefði ekki alltaf verið til fyrirmyndar, en á hitt væri að líta, að Ísland hefði starfað við sömu leikreglur og önnur ríki í EES. Meginástæðurnar til þess, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa kom harðar niður á Íslendingum en öðrum, eru 1) kerfisgalli í EES-samningnum (tryggingarsvæðið var Ísland eitt, en rekstrarsvæðið Evrópa öll, svo að bankana vantaði bakhjarl), 2) fautaskapur Breta (sem minnkuðu áreiðanlega stórkostlega verðmæti lánasafns bankanna með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök og taka Kaupþing yfir), 3) glannaskapur bankamanna, en hann má rekja til skorts á aðhaldi eftir hinn sögulega ósigur Davíðs fyrir Golíat sumarið 2004, þegar forsetinn gerðist klappstýra útrásarvíkinga, fjölmiðlar komust í eigu örfárra auðjöfra, stjórnmálamenn bergmáluðu Borgarnesræðurnar illræmdu og dómstólar sendu röng skilaboð út í atvinnulífið með hæpnum úrskurðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook