Svar Blaðamannafélagsins

Svanborg Sigmarsdóttir, sem situr í stjórn Blaðamannafélagsins, sendi mér eftirfarandi svar við fyrirspurn minni til félagsins:

Kæri Hannes - og aðrir þeir sem hafa túlkað ályktun BÍ með eigin höfði í stað þess að fylgja hinu ritaða orði.

Ég hef orðið þess vör að fjölmargir, líkt og þú, eru að bera út þann boðskap að Blaðamannafélagi Íslands sé svo ógurlega uppsigað við fyrrum stjórnmálamanninn Davíð Oddsson að það þurfi að senda frá sér ályktun um manninn þegar hann sest í ritstjórastól. Þetta sjáist á því að ekki var send út ályktun þegar Þorsteinn Pálsson (eða Össur Skarphéðinsson) varð ritstjóri.

Misskilningur þinn og annarra sem bera fram álíka boðskap, hvort sem hann er óvart eða viljandi (og ég gef mér að þið séuð nú ekki að gagnrýna ályktunina án þess að hafa lesið hana) er sá að halda að við höfum verið að gagnrýna það að fyrrum stjórnmálamaður sé að setjast í ritstjórnarstól Morgublaðsins.

„Afskipti Davíðs Oddssonar af stjórnmálum og störf hans sem Seðlabankastjóri tengja hann efnahagshruninu síðasta haust með slíkum hætti að blaðamenn geta ekki við unað,“ stendur í ályktuninni. Hér er greinilega verið að gagnrýna það að virkur gerandi (og í orðinu gerandi er ekki verið að vísa til sakar) í banka- og efnahagahruninu sem hér varð síðasta haust hafi verið ráðinn sem ritstjóri eins stærsta dagblaðs Íslands; það er ekki verið að gagnrýna það að fyrrum stjórnmálamaður verði ritstjóri. BÍ hefði einnig ályktað ef einhver annar sem var gerandi í efnahagshruninu yrði ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins.

Nú þegar við höfum það á hreinu er ég vonandi búin að svara spurningunni þinni; hví BÍ ályktaði ekki þegar Þorsteinn Pálsson var ráðinn á Fréttablaðið. Vonandi snýrðu þér að einhverju öðru núna í staðinn fyrir að hafa áhyggjur af heilindum BÍ. Ekki nema þú kjósir að hafa skuli það er betur hljómar.

Svanborg Sigmarsdóttir staðfestir það í þessu svari, sem blasir raunar við: Blaðamannafélagið fer í manngreinarálit. Það er á móti Davíð Oddssyni, af því að hann er Davíð Oddsson, en ekki Þorsteinn Pálsson. (Þorsteinn gerði margt umdeilt í ráðherratíð sinni.) Ef til vill kemur þetta ekki á óvart, þegar haft er í huga, að margir félagar í Blaðamannafélaginu eiga að baki ljóta sögu í aðdraganda hrunsins, þegar þeir störfuðu á Baugsmiðlum og tóku þátt í aðförinni að Davíð, sem varaði nánast einn manna við glannaskap Baugsmanna og ævintýramennsku. Ef einhverjir settu Ísland á hliðina, þá voru það mennirnir í einkaþotunum og lystisnekkjunum, eigendur Baugsmiðlanna, sem skulduðu þúsund milljarða í íslensku bönkunum, þegar upp var staðið! Síðan afskrifa þeir stóran hluta skulda sinna og halda áfram að reka þessa fjölmiðla eins og ekkert hafi í skorist. Ætti Blaðamannafélagið ekki að hafa meiri áhyggjur af því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband