22.8.2009 | 15:33
Góð grein Kjartans Gunnarssonar
EINN dapurlegasti kaflinn í sögubókum framtíðarinnar verður vafalaust sá sem fjallar um Icesave-málið svokallaða og þá 700 milljarða króna skuld sem ríkisstjórnin hefur nú nánast tryggt að lendi að miklu leyti á íslensku þjóðinni.
Sagan hefst á því að vegna Evróputilskipunar var Íslandi gert að koma á fót innlánatryggingakerfi og stofna sérstakan sjóð í því skyni, sem meðal annars yrði notaður til að greiða þeim til baka sem eiga sparnaðarreikninga í íslenskum banka ef hann skyldi fara í þrot.
Margt er enn óljóst eða óupplýst hvað varðar fundi, bréf og samtöl íslenskra ráðherra og embættismanna sem kann að hafa haft áhrif á að Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslenska banka. Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES- svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabaka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Með því að falla fyrst frá því að fá úr því skorið hver raunveruleg ábyrgð Íslands er og nú síðast með því að heykjast á því að annaðhvort ríkið eða Landsbankinn, eða báðir aðilar, höfði mál vegna ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga hefur ríkisstjórnin í reynd afsalað Íslendingum öllum lagalegum og réttarfarslegum möguleikum í málinu.
Þó má segja að enn sé örlítil vonarglæta eftir í málinu því enn á Tryggingasjóður innstæðueigenda eftir að taka við skuldunum og tryggingarupphæðirnar eru því formlega séð enn á ábyrgð viðkomandi ríkja. Eins og undirritaður lýsti yfir við atkvæðagreiðslu um málið í þinginu 5. desember síðastliðinn(2008) lítur þingflokkur Vinstri grænna á samninginn sem riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning. Undir þetta sjónarmið hafa nú tekið þeir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður með þeim rökum að samningurinn sé til kominn vegna þvingana frá ESB, sem hafi sett það sem skilyrði fyrir lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki tryggingasjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn...
Þessi texti er ekki eftir mig né er þetta úr grein minni um Icesave-saminginn í þessu blaði sl. föstudag, 14. þ.m. Höfundurinn er ráðherrann, sem kaus að senda mér tóninn úr kór Hóladómkirkju sl. sunnudag, 16. þ.m., fyrir að halda fram sömu sjónarmiðum og hann gerði sjálfur svo skelegglega snemma á þessu ári. Þegar Steingrímur J. Sigfússon skrifaði þetta í janúar 2009 voru hann og nánustu félagar hans að leggja á ráðin um myndun núverandi ríkisstjórnar og söguleg svik Samfylkingarinnar við samstjórnarflokk sinn þá, Sjálfstæðisflokkinn. Aðgöngumiðarnir að því stjórnarsamstarfi voru tveir, báðir á kostnað þjóðarinnar. Annars vegar umsókn um ESB-aðild og hins vegar já og amen við öllum kröfum ESB, Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, enda myndi auðmýkt þar bæta stöðuna í aðildarviðræðum. Hvort tveggja þessara skilyrða hefur nú Steingrímur samviskusamlega efnt.
Þegar ég leyfi mér að benda á sömu rök fyrir málstað Íslendinga og Steingrímur gerði í blaðagrein í janúar 2009 fer Jón Baldvin Hannibalsson af hjörunum í Morgunblaðinu miðvikudaginn 19. þ.m. Í janúar var ég í meginatriðum sammála Steingrími og er það enn að frádregnum pólitískum upphrópunum hans, sem ég hirði ekki um að endurbirta. Steingrímur taldi þá, að ekki væri ríkisábyrgð á tryggingasjóðnum og því enn síður á Landsbankanum. Þá vildi Steingrímur að Íslendingar færu dómstólaleiðina til þess að fá skorið úr um skyldur sínar í málinu og hann taldi væntanlegan samning riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning. Nú er Steingrímur leiðtogi fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar og þá er hans fyrsta verk að gera allt í Icesave-málinu þveröfugt við það sem hann sagði í janúar. Og ekkert skaðabótamál hefur verið höfðað gegn Bretum. Hver skuldar hverjum skýringar?
Ég er ekki reiðubúinn til þess að fallast á að Íslendingar gangist í ábyrgð fyrir hundruðum milljarða, án þess að tilraun sé gerð til þess að fá skorið úr réttarágreiningi um skylduna. Rétt er að minna á að nær allir sem taka til máls um greiðsluskylduna, fræðimenn innlendir sem erlendir, draga hana í efa og helstu blöð Bretlands taka nú undir þau sjónarmið. Hvað er það sem raunverulega knýr stjórnvöld til þess að ganga þessa óheillagöngu? Fullyrðingar Jóns B. Hannibalssonar um aðra þætti Icesave-málsins leiði ég hjá mér. Ég vona að öll gögn málsins komi fram, ekki síst að leynd verði létt af öllum gögnum í Bretlandi um samskiptin við Ísland árið 2008 og þau verði ófölsuð. Að lokum ítreka ég að mér vitanlega var ávallt fylgt réttum lögum varðandi margnefnda innlánsreikninga.
Birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2009. (Ég vona, að ég brjóti engan höfundarrétt með því að setja þessa ágætu grein Kjartans á bloggsíðu mína. Ég get tekið undir hvert einasta orð í henni.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:36 | Facebook