24 stundir, Sverrir Stormsker og Mannlíf

Ég svaraði í 24 stundum laugardaginn 28. júní 2008 nokkrum athugasemdum bloggara um mig í vikulegum þætti, sem blaðið hefur hleypt af stað, þar sem menn svara ummælum annarra bloggara um þá. Skoða má viðtalið hér. Ég var í þætti Sverris Stormskers, Miðjunni, á Útvarpi Sögu, FM 99,4, tvo miðvikudaga, 11. og 18. júní, þar sem hann spurði mig spjörunum úr. Sverrir hefur sett upptökurnar á heimasíðu sína.

ml0807aÉg svaraði einnig spurningu Mannlífs um, hver væri áhrifamesti Íslendingurinn. Mannlíf hefur það ekki alveg nákvæmlega eftir í síðasta hefti sínu, því að tímaritið segir, að ég hafi nefnt Davíð Oddsson einan áhrifamestan, en sannleikurinn er sá, að ég nefndi þrjá menn, hann og þá Björgólf Guðmundsson og Geir H. Haarde, og treysti mér ekki til að gera upp á milli þeirra um áhrif. Hér er tölvuskeytið, sem ég sendi Sigurjóni M. Egilssyni, ritstjóra Mannlífs:

Ég treysti mér ekki til að gera upp á milli þessara þriggja manna og raða þeim þess vegna í stafrófsröð:

1-3. Björgólfur Guðmundsson

1-3. Davíð Oddsson

1-3. Geir H. Haarde

Rökstuðningur um hvern og einn (má hafa eftir mér, en ekki eins og ég hafi raðað viðkomandi manni í eitthvert eitt sæti af þremur):

Björgólfur Guðmundsson er ekki aðeins einn ríkasti Íslendingur, sem uppi hefur verið, eigandi banka og margra annarra fyrirtækja og fjölmiðla, heldur hefur hann líka öðlast mikið siðferðilegt áhrifavald. Hann er góðgjarn og skynsamur, og menn hlusta á hann. Hann er öðrum fyrirmynd, af því að hann er lifandi dæmi um það, að menn geta ratað í mikla erfiðleika, en brotist út úr þeim aftur og jafnvel orðið meiri og betri menn.

Davíð Oddsson er svo öflugur maður, að hann hefur ekki glatað áhrifum sínum, þótt hann sé ekki lengur í fylkingarbrjósti í stjórnmálum. Rætur áhrifa hans eru tvíþættar. Í fyrsta lagi nýtur hann mikillar virðingar og trausts þorra þjóðarinnar, þótt orðastrákar á kaupi hjá óvinum hans reyni að gera lítið úr því. Menn vita, hversu heill Davíð er og heiðarlegur, hreinn og beinn og hræsnislaus. Í öðru lagi gegnir Davíð auðvitað enn lykilstöðu sem bankastjóri Seðlabankans. Hann hefur átt drjúgan þátt í því, að bankarnir virðast vera að komast út úr þeirri kreppu, sem þeir voru í. Vandlega er hlustað á Davíð í hinum alþjóðlega peninga- og bankaheimi. Fátt væri fjær Davíð en að láta gamlar væringar stjórna sér, þegar til kastanna kemur.

Geir H. Haarde hefur á stuttum ferli sínum sem forsætisráðherra bætt mjög við það traust, sem hann vann sér sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hann er friðsamur og laginn, og þess vegna fer minna fyrir áhrifum hans en margra annarra, sem hærra gala. En hann er fastur fyrir, þegar á reynir. Öll þjóðin veit, þegar hún sér Geir, að hann vill vel og vinnur vel. Hann hefur líka góða menntun og er ákaflega frambærilegur. Það er til slíkra manna, sem leitað er á úrslitastundum.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband