Gagnslaus aðstoð

Ánægjulegt var að heyra á dögunum, að Ísland sé í efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna um vísitölu þroskaskilyrða (human development index). Í þeim mælikvarða er ekki aðeins reiknað með landsframleiðslu á mann, sem er algengasti mælikvarði á lífskjör, heldur líka menntun og heilsu íbúa. Sérstaklega hljóta þessar fréttir að ylja þeim um hjartarætur, sem tóku hér völd fyrir 16 árum röskum, 30. apríl 1991, en þá var horfið frá ríkisafskiptastefnu fyrri tíðar. Eftir þau tímamót hjaðnaði verðbólga vegna aðhalds í peningamálum, halli á ríkissjóði breyttist í afgang vegna aðhalds í ríkisfjármálum, hagkerfið var opnað með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, biðstofa forsætisráðherra tæmdist, af því að hætt var að ausa fé í illa rekin fyrirtæki, hið hagkvæma kvótakerfi í sjávarútvegi var treyst með margvíslegri löggjöf, stór og lítil fyrirtæki ríkisins voru seld, en féð notað til að létta skuldum af ríkissjóði, og skattar voru lækkaðir stórlega á fyrirtæki og einstaklinga.

Fátækir nutu góðs af

Allir nutu góðs af, jafnt fátækir og ríkir. Í Evrópu er samkvæmt nýlegri skýrslu Evrópusambandsins fátækt næstminnst á Íslandi. Það er aðeins í Svíþjóð, sem hlutfall fólks undir fátæktarmörkum er lægra, en þar eð lífskjör eru lakari þar, eru kjör fátækra hér betri í krónum og kaupmætti (þótt auðvitað séu þau samkvæmt skilgreiningu aldrei öfundsverð). Ef marka má sömu skýrslu Evrópusambandsins, þá er tekjuskipting hér fremur jöfn, svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Enn segir í þessari skýrslu, að í Evrópu sé fátækt í elsta aldurshópnum minnst á Íslandi. Á Norðurlöndum eru samkvæmt nýlegri skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar lífeyristekjur hæstar að meðaltali á Íslandi. Smám saman er tekið að muna um hina öflugu lífeyrissjóði okkar. Barnabætur eru að vísu að meðaltali lægri á Íslandi en í Svíþjóð, en miklu hærri til láglaunafólks, því að við greiðum háar barnabætur til þess og lágar til hátekjufólks, en Svíar greiða hið sama með öllum börnum óháð efnahag og aðstöðu foreldra. Vegna tekjutengingar bóta er velferðaraðstoð hér einmitt markvissari.

Þróunaraðstoð er aðstoð án þróunar

Sumir segja við þessar góðu fréttir, að við eigum að láta fátækar þjóðir í suðri njóta auðlegðar okkar. Eigi náungi þinn engan kyrtil, en þú tvo, þá skaltu gefa honum annan þinna. Ég efast ekki um góðan hug þeirra, er svo mæla. En reynslan sýnir, að svokölluð þróunaraðstoð er gagnslaus. Hún er aðstoð án þróunar. Við veittum til dæmis Grænhöfðaeyjum verulega þróunaraðstoð árum saman. Hún breytti engu. Vegna stórfelldrar þróunaraðstoðar hefur Tansanía breyst í bónbjargaríki. Á sama tíma má sjá mörg dæmi um þróun án aðstoðar, og eru Austurálfutígrarnir fjórir frægastir, Suður-Kórea, Taívan, Hong Kong og Singapore. Sigurður Guðmundsson landlæknir og kona hans, Sigríður Snæbjörnsdóttir, störfuðu í eitt ár í Malaví. Þau lýstu því í fróðlegu viðtali hér í Fréttablaðinu 4. nóvember, hvernig fé er sóað þar syðra í gagnslausa þróunaraðstoð.

Besta ráðið er frjáls viðskipti

Rétta ráðið er ekki að hækka framlög íslenska ríkisins til þróunaraðstoðar, heldur að berjast á alþjóðavettvangi fyrir frjálsum viðskiptum. Fátækar þjóðir í suðri munu njóta góðs af auðlegð Vesturlanda, ef þau fá að selja vöru sína óheftar á alþjóðamarkaði í stað þess, að Evrópusambandið og aðrir aðilar reisi í kringum sig háa tollmúra. Þessar þjóðir þurfa líka að fá öflug fyrirtæki til að fjárfesta í arðbærum verkefnum (á vegum einkaaðila, ekki Alþjóðabankans, sem er ekkert annað en risavaxin byggðastofnun). Mestu varðar, að hinar fátæku þjóðir suðursins læri af reynslunni. Þær komast í álnir með því að opna hagkerfið, afnema höft, auðvelda rekstur einkafyrirtækja, halda afskiptum af atvinnulífi í lágmarki, vernda eignarréttinn og fara að öðru leyti að dæmi Austurálfutígranna eða vestrænna þjóða, meðal annars Íslendinga. Verkefnið er ekki að gefa náunga okkur kyrtil, heldur að auðvelda honum að sauma kyrtla, ekki aðeins sjálfum sér, heldur líka til að selja á vestrænan markað.

Fréttablaðið 30. nóvember 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband