22.11.2007 | 14:22
Pétur Björnsson forstjóri
Pétur Björnsson var áhugasamur um þjóðmál, hafði fastmótaðar skoðanir og alþjóðlega útsýn, enda hafði hann eftir stúdentspróf 1949 menntast í Svartaskóla (Sorbonne) í París, Þrenningargarði (Trinity College) í Cambridge og Ríkisháskólanum í Flórída í Tallahassee. Pétur stundaði ekki aðeins nám í París, heldur lenti líka í ýmsum ævintýrum, þegar hann skemmti sér oft næturlangt með auðugum furstum úr Arabaríkjum. Gengi krónunnar var hátt miðað við franka, og gátu íslenskir stúdentar lifað við rausn. Stundum brugðust þó gjaldeyrisyfirfærslur. Eitt sinn leigðu Pétur og annar Íslendingur herbergi á gistihúsi í vondu hverfi í París. Var leigan lág. Skýringin kom, þegar annar þeirra þurfti um miðjan dag að bregða sér heim: Þá var ein af dætrum götunnar þar með viðskiptavini. Hypjuðu þeir Pétur sig brott hið snarasta.
Pétur kímdi stundum yfir því, að umsjónarkennari hans í Cambridge var hinn frægi marxisti Maurice Dobbs. Þá eyddi Pétur þó tímanum ekki síður í að heimsækja ungar stúlkur í hjúkrunarskóla þar í grennd, og þar hitti hann Phoebe, sem var góð vinkona hans alla tíð. Þurfti hann að klifra upp háa veggi til að ná fundum hennar og naut þess þá, að hann var vel á sig kominn. Heima á Íslandi kvæntist Pétur 1957 Sigríði Hrefnu Magnúsdóttur, afbragðskonu. Heimsóttu þau hjón Phoebe og mann hennar eitt sinn á námsárum mínum í Englandi, og var gaman að sitja með þeim fjórum og minnast liðins tíma.
Í Tallahassee kynntist Pétur vel ýmsum mönnum, sem síðar komust til áhrifa í her og leyniþjónustu Bandaríkjanna. Var hann stundum milligöngumaður, þegar á þurfti að halda, enda í senn góður Íslendingur og eindreginn Bandaríkjavinur. Hann vissi fyrr en flestir aðrir um þá ætlun Bandaríkjastjórnar að kalla herafla sinn héðan, og hafði hann eitt sinn frumkvæði að hádegisverði með okkur Davíð Oddssyni í Ráðherrabústaðnum til að vara við þessu. Í Tallahassee var einn kennari Péturs James M. Buchanan, sem síðar varð frægur hagfræðingur og hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Þegar Buchanan kom til Íslands haustið 1982, bauð Pétur honum heim til sín, en hann var góður gestgjafi og manna veitulastur.
Pétur rak af skörungsskap fyrirtækið Vífilfell, sem framleiðir kók. Það villti sumum sýn, að hann var gleðimaður. En vitaskuld þurfti annað en aukvisa til að skapa einhverja mestu markaðshlutdeild kóks í heiminum, eins og Pétri tókst hér á Íslandi. En þótt Pétur byggi við miklu ríflegri efni en títt var um Íslendinga á seinni hluta tuttugustu aldar, var hann ætíð alþýðlegur, enda vinsæll af starfsfólki sínu. Þegar ég var dreginn fyrir rétt í ársbyrjun 1986 vegna reksturs útvarpsstöðvar, hlýnaði mér um hjartarætur, þegar ég leit fram í áheyrendastúkuna. Þá var Pétur þar kominn mér til halds og trausts. Undir lokin rökkvaði í lífi hans sökum þráláts sjúkdóms, og þá hafði hann ómetanlegan styrk af konu sinni og þremur dætrum, Ástu, Erlu og Guðrúnu, börnum þeirra og barnabörnum. Pétur Björnsson var gæfumaður, og það var gæfa að eiga hann að vini.
Minningargrein í Morgunblaðinu 22. nóvember 2007. (Myndin er af okkur Pétri Guðfinnssyni útvarpsstjóra og Pétri Björnssyni forstjóra.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook